Einn okkar allra ástsælasti leikari, Örn Árnason, varð sextugur rétt fyrir Covid, bjó til sýningu um tímamótin, en viti menn, síðan hafa liðið tveir afmælisdagar til viðbótar.

„Sýningin hét Sjitt, ég er sextugur en hún átti að fara á svið fyrir Covid og síðan þá hef ég átt tvö afmæli og þess vegna heitir hún „Sjitt, ég er 60+“,“ útskýrir hann.

„Einhverra hluta vegna hef ég aldrei leitt hugann að því að maður gæti staðið í þeim sporum að eiga bara fimm ár eftir í eftirlaunaaldur,“ segir hann hvumsa. „Fyrir mér er gamalt fólk alltaf 12-15 árum eldra en ég er!“

Gamall hljómar svo gamalt

Örn segist í sýningunni velta fyrir sér orðinu „gamall“, en til séu alls konar skemmtilegri orð yfir það að aldurinn færist yfir.

„Gamall hljómar eitthvað svo …gamalt!“ segir hann í léttum tón.

Örn lofar því að söngurinn verði ekki langt undan, en eins og oft áður verður Jónas Þórir honum til halds og trausts í þeim efnum. Í sýningunni horfist Örn í augu við sjálfan sig og ferilinn og er bæði á persónulegu og léttu nótunum.

„Það verða alls konar endurlit sem enginn hefur heyrt, en engar lygasögur,“ segir hann og hlær.

„Bara heiðarlegur og sannur eins og menn eiga að vera. Og fagna því að geta alltaf verið: Á besta aldri,“ segir hann að lokum. n