Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, og Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tókust á um stöðuna í íslenskum sjávarútvegi í Sprengisandi í dag. Sér í lagi var þar deilt um hin umdeildu kaup Síldarvinnslunnar á útgerðarfyrirtækinu Vísi og um áhrif þeirra í íslensku samfélagi.

„Þessi viðskipti per se finnst mér vera góð fyrir margra hluta sakir, eða allavega betri en þau hefðu getað verið,“ sagði Vilhjálmur. „Fyrir viku gat almenningur ekki keypt hlut í fiskvinnslufyrirtækinu Vísi. Nú getur almenningur gert það. Ég held að það sé góð þróun að útgerðarfyrirtækin fari á almennan markað. Ég er ánægður að fjölskyldan ákvað að fara þá leið og ég er líka ánægður að kvótinn var ekki seldur sér.“

Vilhjálmur sagðist fyrir löngu hafa séð fyrir að smærri fyrirtæki yrðu keypt upp af þeim stærri. „Við verðum að horfa til þess að því hærri sem gjöldin eru því erfiðara er fyrir smærri fyrirtæki að starfa. Ég hef meiri áhyggjur af því að aflaheimildirnar eru miklu meiri úti á landi en hvar byggist tæknin? Hérna í Reykjavík. Það rímar ekki.“

Hanna Katrín var öllu gagnrýnni á söluna og á ástand sjávarútvegskerfisins í heild sinni. Hún sagði samþjöppunina í eignarhaldinu þó ekki kjarna málsins og sagði hana vera smjörklípu sem ætlað væri að afvegaleiða umræðuna. „Við erum að tala um fyrirtæki sem byggja á þjóðarauðlind án þess að borga sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir,“ sagði hún. „Samkvæmt lögum er eignarhaldið ekkert umdeilt, en hvernig farið er með eignina, það er umdeilt. Þessi fyrirtæki verða svo öflug og ráðandi í íslensku atvinnulífi. Við erum komin í stórkostleg vandræði með þessi mál.“

„Sjávarútvegurinn er að eignast íslenskt samfélag,“ sagði Hanna. Hún beindi athygli að því að Viðreisn hefði stungið upp á að aflaheimildir yrðu gerðar tímabundnar og að innkölluð yrðu þrjú til fimm prósent kvótans árlega. Þessi prósent yrðu seld á uppboði á hverju ári en í staðinn yrðu veiðigjöld felld niður. „Þrjú til fimm prósent innköllun árlega er býsna mikill fyrirsjáanleiki. Meiri fyrirsjáanleiki en mörg fyrirtæki hafa í sínum rekstri.“

Vilhjálmur taldi að eins og væri skilaði sjávarútvegurinn meiri arði til íslensku þjóðarinnar í formi fjárfestinga í nýsköpun og atvinnuskapandi rekstri. Þær breytingar sem Hann legði upp með kæmu til með að raska slíkri verðmætasköpun. „Er það eina arðgjaldið sem við erum að reyna að ná fram hérna? Er það eina sem við viljum er að fá arð í ríkissjóðinn? Hvað með atvinnusköpunina, nýsköpunina?“

Hanna Katrín dró í efa fullyrðingar Vilhjálms um að sjávarútvegur væri áhættusamur eða óarðbær rekstur. „Komdu þá með tölurnar,“ sagði Vilhjálmur.

„Komdu með skýrsluna,“ svaraði Hanna.