„Ég var upprunalega að leita að skemmu þar sem ég gæti unnið með sjávarþang,“ segir Dana Marlin, nýr eigandi Óðinshúss á Eyrarbakka. „Þegar ég uppgötvaði Óðinshús fékk ég hins vegar alls konar hugmyndir og datt í hug að opna kaffihús með smá þangívafi.“

Óðinshús var byggt árið 1913. Sambyggt húsinu er gamla Rafstöðin sem var í seinni tíð meðal annars notuð af slökkviliðinu. Húsin, sem voru veigamikil í útgerðarsögu Eyrarbakka, eru bæði friðuð og voru sett á sölu árið 2019

Dana, sem er maltneskur að uppruna, kom fyrst til Íslands fyrir um áratug. Hann hefur starfað hér sem efnafræðingur en vinnur nú hörðum höndum að því að koma húsinu í lag þar sem hann hyggst opna kaffihús og bar. „Þetta er mikil vinna en mig langar að endurreisa húsið í sinni upprunalegu mynd.“

Óðinshús er sambyggt gömlu Rafstöðinni og er staðsett á besta stað á Eyrarbakka.

Þá hefur Dana biðlað til íbúa á Eyrarbakka um að leggja sér lið með því að gefa sér timbur til framkvæmda ef þeir eiga það aflögu.

„Ég var að keyra hér um daginn þegar ég rak augun í timburhrúgu sem lá í vegkantinum,“ segir hann. „Mér datt í hug að ef íbúar Eyrarbakka myndu hjálpa til við að leggja fram timbur yrði samfélagsandi verkefnisins ef til vill sterkari.“

Í Óðinshúsi er rúmgóður kjallari sem Dana hyggst nýta til að þurrka þangið en hugmyndin er að selja gestum það síðan sem matvöru og krydd. Hugmyndina fékk Dana á ferðum sínum um L.

„Ég var að sigla um Lófóten-eyjar í Noregi þegar ég hitti tvær konur sem ráku fyrirtæki sem seldi sjávarþang, mestmegnis söl,“ segir hann. „Sjávarþang er á mikilli uppleið í heiminum. Það hefur verið nýtt í matargerð í Austurlöndum í margar aldir en hefur nýverið verið að sækja í sig veðrið á Vesturlöndum.“

Enn eru ekki allar hugmyndir Dana um Óðinshús upptaldar en hann stefnir líka á að opna og reka lítið brugghús í Rafstöðinni. „Hér var áður bruggsmiðja sem hefur verið lögð af,“ segir hann. „Ef til vill gæti verið gaman að opna lítið brugghús, ekki til að selja í vínbúðir landsins heldur bara hér í þorpinu. Mig langar að brugga bjór sem fangar bragðið af gömlu dögum Eyrarbakka og fólkinu sem vann hér og bjó.“

Þótt húsið sé gamalt er það í góðu ásigkomulagi og margt hægt að nýta.
Fréttablaðið/Valgarður Gíslason