Sjávarhiti í hlýsjónum sunnan og vestan við landið hefur hækkað og var síðustu mánuði um og yfir meðallagi hita síðustu fimm áratugi, á meðan hann hefur verið undir meðallagi síðustu fjögur ár. Þetta kemur fram í niðurstöðum vorleiðangurs Hafrannsóknastofnunarinnar.

Þá er selta sjávar enn töluvert undir meðallagi líkt og hefur verið síðustu fjögur árin en hún er þó á uppleið. Lækkun hita og seltu í hlýsjónum síðustu ár tengjast sviptingum sem verið hafa á vindafari við Labrador og í sunnanverðu Grænlandshafi.

Fyrir norðan land voru þá hiti og selta yfir meðallagi í hlýsjónum og gætti einnig hlýsjávar austur fyrir Langanes en þar var hiti á landgrunni með því hæsta sem mælst hefur að vori undanfarna áratugi.

Í niðurstöðunum kemur einnig fram að vorblómi svifþörunga hafi að mestu verið yfirstaðinn í innanverðum Faxaflóa, en að gróður hafi almennt verið rýr vestan lands og norður af Vestfjörðum. Austur af Siglunessniði og austur um land að Krossanesi var vorblóminn yfirstaðinn. Þá voru gróðurflekkur á Selvogsbanka og á milli Hornbanka og Siglunessniðs.

Þá segir í niðurstöðunum að þegar á heildina sé litið hafi átumagn í yfirborðslögum við landið verið nálægt langtímameðaltali. Á Vestur - og Austurmiðum var átumagn undir meðallagi, en um eða yfir meðallagi á Norður- og Suðurmiðum. Þá var rauðatá áberandi í flestum sýnum, einkum fyrir sunnan og vestan.