Snorri Rafnsson, Vargurinn, kom grindhval til bjargar sem strandað hafði í Kolgrafafirði. Hann réri á kjak út til hvalsins, skellti sér út í sjóinn og náði með herkjum að ýta honum á flot.

Þekkt er að grindhvalir syndi upp að landi, strandi og drepist þar en í Kolgrafafirði í gær voru á sjöunda tug hvala í einni vöðu. Einn hvalurinn synti of grunnt og hefði sennilega drepist hægum dauðdaga ef ekki hefði verið fyrir björgunina.

Í gærkvöldi var vaðan rekin út úr firðinum og fylgt út á rúmsjó. 

Vargurinn, sem heldur úti ákaflega vinsælli Snapchat-rás undir því nafni, lýsti upplifuninni fyrir Fréttablaðinu í gær. „Mér finnst gaman að synda með hvölum eða sigla með þeim og finna hvað þeir eru kraftmiklir þannig að ég dreif mig í morgun. Um leið og ég setti á flot þá ruku þeir af stað inn fjörðinn og ég sá að torfan stefndi upp í klettana. Þar strönduðu nokkrir, flestir komust aftur út en einn festist, svo ég henti mér út í og byrjaði að hjálpa honum. Þá sá ég hvað þetta var stór hvalur, en ég fór að taka á honum og koma honum út í sem var geggjuð upplifun,“ sagði hann.

„Flottur sigur“

Björgunin tók um 20 mínútur. „Ég sá hvernig rifið lá og ég byrjaði að ýta honum eins og ég gat og velta honum raunverulega, það var mikill þari þarna sem hann flæktist í og ég reyndi að koma honum fyrir þá hindrun. Það kom þarna kajakræðari og við náðum að koma honum af stað. Það var flottur sigur.“ 

Hann útilokaði ekki að um forystudýrið hafi verið að ræða þar sem vaðan beið öll eftir hvalnum. „Hvalavaðan beið eftir honum, það er oft forystuhvalurinn sem er fyrstur af stað og þar af leiðandi fyrstur til að stranda,“ sagði Snorri í gær.

Myndbandið sem hér er að ofan er sett saman úr mörgum „snöppum“ sem tekin voru upp á gleraugu. Þess vegna er myndin hringlaga. Snöppin eru ekki alveg í réttri röð en myndbandið sýnir engu að síður glögglega hvernig Snorri handlék hvalinn í návígi.

Hér fyrir neðan má sjá björgunina frá öðru sjónarhorni en Ólsarinn Vagn Ingólfsson veitti Fréttablaðinu góðfúslegt leyfi til að birta þessa upptöku.