Framboðslistar Sjálfstæðisflokksins munu skýrast seinna en annarra, í maí og júní. Þrýst hefur verið á kjördæmafélögin að hafa prófkjör eða uppstillingar seint og eigna sér sviðið fyrir kosningarnar í september.

Á Norðurlandi eystra ríkir mikil spenna um framtíð Kristjáns Þórs Júlíussonar. Kristján hefur ítrekað mælst óvinsælasti ráðherrann og fylgi flokksins í kjördæminu að jafnaði verið það lakasta á landinu.

Talið er öruggt að Njáll Trausti Friðbertsson muni áfram sækjast eftir þingmennsku. Nafn Kristjáns Þórs Magnússonar, sveitarstjóra í Norðurþingi, hefur verið nefnt til sögunnar til að leiða listann. Einnig hefur Gauti Jóhannsson, fyrrverandi sveitarstjóri á Djúpavogi, verið orðaður við framboð en hann leiddi flokkinn til góðs sigurs í nýstofnuðu Múlaþingi í haust.

Einnig ríkir spenna á Norðurlandi vestra þar sem mörgum þykir eðlilegt að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra leiði. Teitur Björn Einarsson varaþingmaður stefnir á þingsæti í kjördæminu, sem flokkurinn á nú tvö. Setur þetta óneitanlega pressu á núverandi oddvita, Harald Benediktsson.

Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi.

Hið sama gildir í Reykjavík þar sem oddvitinn Sigríður Á. Andersen sagði af sér ráðherraembætti á miðju kjörtímabili og flokkssystir hennar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tók við. Stefnir því í fjörugt prófkjör. Enginn úr núverandi borgarstjórnarflokki er talinn líklegur til að bjóða sig fram í efstu sæti. Áhugasöm eru hins vegar sögð Hildur Sverrisdóttir, fyrrverandi þingmaður, Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi, og Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs.

Þingmönnum Suðurkjördæmis mun líklega berast samkeppni frá Unni Brá Konráðsdóttur og Vigdís Ósk Häsler, framkvæmdastjóri þingflokks, er sögð áhugasöm um framboð í kraganum.