„Okkur finnst rétt að þarna sé meira gagnsæi en ekki svona babúskur þar sem hvert er inni í öðru,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur. Eyþór ásamt Hildi Björnsdóttur samflokkskonu sinni bókaði í stjórn Orkuveitunnar í lok október að skoða ætti þá „sviðsmynd að OR verði lagt niður í núverandi mynd og verkefni verði flutt til dótturfélaga“ svo hver eining yrði sjálfstæðari og hætta á hagsmunaárekstrum yrði minni.

Móðurfélag OR er í raun eins og eignarhaldsfélag að sögn Eyþórs. „Þar af leiðandi er svolítið langt á milli eigenda og þeirra eininga sem eru raunverulega virkar. Við viljum opna þetta, stytta boðleiðir og létta á kerfinu,“ segir hann. Eyþór bendir á að Reykjavíkurborg sé meirihlutaeigandi í Orkuveitunni sem eigi síðan einstaka einingar í rekstri, meðal annars Veitur, Gagnaveituna og Orku náttúrunnar.

„Fulltrúar borgarinnar eru með beinan aðgang að Orkuveitunni, sem er eignarhaldsfélagið, en ekki með beinan aðgang að rekstrareiningunum,“ segir hann. Frá því Orkuveitunni var skipt upp og dótturfélög stofnuð um mismunandi rekstur í ársbyrjun 2014, hefur sú regla gilt að þrír af fimm stjórnarmönnum í dótturfélögunum ásamt varamönnum séu starfsmenn samstæðu Orkuveitunnar.

„Það á ekki gera þetta svona bara af því að þetta hefur lengi verið svona heldur skoða hvað sé best til að tryggja samkeppni og að einingarnar séu óháðar. Það þarf meiri skilvirkni og opna samkeppni í staðinn fyrir að þetta sé lokað,“ segir Eyþór. Gera mætti dótturfélögin óháð eignarhaldsfélagi.

„Því ef þau eru alltaf undir einu félagi þá er ekki víst að hagsmunirnir séu alltaf óháðir. En þetta er líka spurning um að einfalda félögin; þetta er orðið dálítið þykkt millilag – Orkuveitan. Og Orkuveituhúsið er náttúrlega táknmynd fyrir mikla yfirstjórn,“ segir Eyþór.

Í minnisblaði stjórnenda Orkuveitunnar sem lagt var fram á fyrrnefndum stjórnarfundi segir að fyrirkomulagið frá 2014 til að tryggja að samstæðan starfi sem heild í samræmi við áherslur eigenda hafi að því er virðist gefið góða raun.„Í samræmi við framangreindar skýringar er lagt til að ákvæði samþykkta dótturfélaga um að þrír af fimm stjórnarmönnum ásamt varamönnum skuli vera starfsmenn samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, skuli vera óbreytt,“ segir í minnisblaðinu.