„Er ekki komið nóg þeim ásetningi Sjálfstæðisflokksins að þvælast fyrir góðu starfi dómstóla í landinu?“ spurði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun og beindi orðum sínum til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.

Helga Vala vísaði til tillagna dómstólasýslunnar um fjölgun dómara við Landsrétt, til að bregðast við vanda réttarins í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu.

„Frá því Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp sinn dóm í mars [...] hefur dómstólasýslan gengið grýtta bónleið til dómsmálaráðherra um nauðsynlega fjölgun dómara við réttinn. Fjarvera dómarana fjögurra úr hópi alls fimmtán dómara við réttinn er ekki léttvægt mál en því miður þá virðist mér sem Hæstvirtur dómsmálaráðherra átti sig alls ekki á þeirri starfsemi sem við þetta raskast.Í hverju máli í Landsrétti þurfa að sitja þrír dómarar, enda er um áfrýjunardómstól að ræða," sagði Helga Vala. Það skarð sem fyrrum dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hafi skilið eftir sig í starfi réttarins hefði þannig óafturkræf áhrif á fjölda fólks.

Á ábyrgð ráðherrans að íbúar landsins njóti réttlátrar málsmeðferðar

„Senn líður að áramótum og þá fara tveir út vegna þeirra tveggja dómara sem samþykktu að fara í leyfi vegna ástandsins en ekkert hefur heyrst frá háttsettum dómsmálaráðherra."

Svo spurði Helga Vala hvort ekki væri komið nóg af ásetningi Sjálfstæðisflokksins að þvælast fyrir góðu starfi dómstólana og hvort það væri ekki hluti af ábyrgð ráðherrans að tryggja að dómskerfið starfi með eðlilegum hætti og íbúar landsins fái notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

„Þvílík þvæla"

Ráðherra brást ókvæða við ræðu þingmannsins.

„Þvílík þvæla að tala um að við séum með ásetningi að standa í vegi fyrir góða framkvæmd dómstólana,“ sagði Áslaug Arna og sagði að þrettán dómarar störfuðu nú við réttinn þar sem áður voru fimmtán. Af þeim fimmtán hefði alltaf verið gert ráð fyrir að einn væri í námsleyfi.

„Erfitt er að halda því fram að dómurinn sé með einhverjum hætti óstarfhæfur eða sinni ekki öllum sínum mikilvægum verkefnum því það gerir hann,“ sagði ráðherra.

Hún kvaðst hafa rætt við bæði Landsrétt og dómstólasýsluna, hún hafi fengið tölur og bíði nú eftir enn nákvæmari tölum um hvernig málin eru og hvernig þau þróist hjá dómstólnum og hvernig þeim gengur. Starf Hæstaréttar væri líka til skoðunar og hvernig hann réð við álagið þegar hann var áfrýjunardómstóll áður en Landsréttur tók til starfa.

Helga Vala tók aftur til máls og sagði miður að dómsmálaráðherra liti svo léttvægt á hlutverk sitt.

Þeim þrettán sem nú dæmdu við réttinn myndi fækka niður í ellefu um áramót.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, segir Landsrétt alls ekki óstarfhæfann.
Fréttablaðið/Ernir

Ráðherra ekki meðvituð um alvarleika málsins

„Mjög margir hafa áhyggjur af ástandinu, meðal annars formaður Dómstólasýslunnar, Hæstaréttardómarinn Benedikt Bogason, sem kom fram í fjölmiðlum í síðustu viku og sagði það það væri ekkert að frétta úr ráðuneytinu,“ sagði Helga Vala og bætti við: „Þannig að það að ráðherra komi hér upp og tali um einhverja þvælu, þegar þeir sem starfa inni í kerfinu lýsa yfir miklum áhyggjum, segir mér að hæstvirtur dómsmálaráðherra er ekki meðvituð um alvarleika málsins.“

Ráðherra hafnaði aftur tómlæti af sinni hálfu í málinu. Það væri í skoðun og ýmsir kostir sem kæmu til greina meðal annars að setja á ný dómara fyrir þá sem eru í leyfi.