„Inni á miðju kjörtímabili er almennt við því að búast að ríkisstjórnarflokkar gefi eitthvað eftir,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um niðurstöður nýrrar könnunar sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið og fréttablaðið.is

Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærsti flokkurinn en 20,5 prósent þeirra sem taka afstöðu styðja flokkinn. Fylgi flokksins minnkar frá könnun sem var gerð í síðasta mánuði þegar það var 22,6 prósent. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn hins vegar 25,3 prósent.

„Hafandi sagt það þá er það alveg augljóst að við erum ekki ánægð með að sjá tölur sem eru undir síðustu kosninganiðurstöðum. Við teljum að við séum að vinna góða vinnu sem muni skila sér þegar upp er staðið,“ segir Bjarni.

Í könnuninni var einnig spurt hvað fólk hefði kosið í alþingiskosningunum 2017. Af þeim sem kusu Sjálfstæðisflokkinn þá styðja 69,5 prósent flokkinn nú. Hins vegar styður 21,1 prósent af þeim nú Miðflokkinn. „Ég hef séð kannanir fyrir ekki svo löngu þar sem margir sem áður kusu Miðflokkinn ætluðu að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og öfugt. Þetta eru bara dæmigerðar sveiflur inni á miðju kjörtímabili.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segist telja að orkupakkamálið sé að hafa áhrif. „En kannski ekki bara út af því máli sjálfu heldur meira út af því að við viljum vera prinsippflokkur. Það sem ég vona er að menn séu að meta það við okkur að við séum flokkur sem stendur við sín prinsipp. Það birtist í orkupakkamálinu en mun gera það líka í fleiri málum.“

Miðflokkurinn er sá flokkur sem bætir mestu við sig frá könnun síðasta mánaðar. Alls bætir flokkurinn við sig 3,6 prósentum og mælist nú með 13,4 prósent. Í kosningunum 2017 fékk flokkurinn 10,9 prósent.

Samfylkingin er næst stærsti flokkur landsins samkvæmt könnuninni með 14,4 prósenta fylgi sem er nánast það sama og flokkurinn mældist með í júní.

Píratar sem voru næst stærsti flokkurinn í júní með 15,2 prósent missa nokkurt fylgi og fá nú 12,3 prósent. Það er þó meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum þegar hann fékk 9,2 prósent.

Samkvæmt könnuninni myndu aðeins 52,6 prósent þeirra sem kusu Vinstri græn 2017 kjósa flokkinn nú. Tæp 17 prósent þeirra sem kusu Vinstri græn síðast styðja nú Pírata og 16 prósent Samfylkinguna. Flokkurinn mælist nú með 12,9 prósent.

Fylgi annarra flokka breytist minna en Viðreisn mælist nú með 10,6 prósent og bætir 0,7 prósentustigum við sig milli kannana. Þá bætir Framsóknarflokkurinn við sig 1,1 prósentustigi og er nú með 8,2 prósent.

Flokkur fólksins missir áfram fylgi og mælist nú með 3,2 prósent en fékk 4,3 prósent í júní. Aðrir flokkar fá 4,6 prósent og þar af fær Sósíalistaflokkurinn 2,7 prósent.

Stuðningur við flokka er í sumum tilvikum afar mismunandi þegar kemur að ólíkum aldurshópum. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur aðeins stuðnings 7,2 prósenta hjá yngsta aldurshópnum, sem er 18-24 ára. Í öðrum aldurshópum er stuðningur við flokkinn á bilinu 19,3 til 24,1 prósent.

Svipaða sögu er að segja af Miðflokknum. Stuðningur við hann er um 4-5 prósent í yngstu aldurshópunum en 21,5 prósent hjá 45-54 ára. Vinstri græn, Píratar og Viðreisn njóta hins vegar mests stuðnings meðal yngstu kjósendanna. Rúm 22 prósent í yngsta aldurshópnum styðja Vinstri græn og rúm 19 prósent Pírata. Fylgi Pírata er raunar svipað í aldurshópunum 25-34 ára og 35-44 ára en minnkar nokkuð hjá þeim sem eldri eru.

Fylgi Vinstri grænna í öðrum aldurshópum er á bilinu 9-14 prósent. Viðreisn mælist með 14 prósent hjá 25-34 ára en á bilinu 6-10 prósent hjá öðrum aldurshópum.

Könnunin var framkvæmd 24.- 26. júlí síðastliðinn og var send á tvö þúsund einstaklinga í könnunarhóp Zenter rannsókna. Svarhlutfallið var 45 prósent en gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og bústu.


Ánægja með forystuna

Í könnuninni var einnig spurt um ánægju kjósenda með formann þess flokks sem það styður. Hægt var að gefa formönnunum einkunn á bilinu 1-5 þar sem 5 er hæsta einkunn.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, fékk hæstu meðaleinkunn meðal sinna stuðningsmanna eða 4,3. Raunar mælast allir formennirnir með 4 eða hærra.

Þau Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, eru bæði með 4,2 og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er með 4,1.

Bæði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, fengu 4,0. Marktækt meiri ánægja mældist hjá Sigmundi Davíð en Loga og Sigurði Inga.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fékk einnig 4,0 en hafa ber í huga að fá svör voru þar að baki. Þar sem Píratar hafa ekki formann voru stuðningsmenn flokksins ekki spurðir þessarar spurningar.


Konur styðja VG en karlar Miðflokkinn

Aðeins reyndist marktækur munur á stuðningi kynjanna við tvo af flokkunum. Þannig styðja 17,8 prósent karla Miðflokkinn en aðeins 7,7 prósent kvenna. Dæmið snýst nánast alveg við hjá Vinstri grænum. Þar er stuðningur meðal kvenna 18,6 prósent en einungis 8,3 prósent meðal karla.

Vinstri græn njóta mests stuðnings meðal kvenna ásamt Sjálfstæðisflokknum sem er með 18,7 prósenta fylgi hjá konum. Sjálfstæðisflokkurinn er einnig stærstur meðal karla með 21,9 prósenta fylgi en Miðflokkurinn kemur næstur.