Fylgi Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík er komið niður fyrir 20 prósent sam­kvæmt niður­stöðum könnunar sem Prósent fram­kvæmdi fyrir Frétta­blaðið. Fylgi flokksins hefur ekki mælst lægra í könnunum Prósents allt kjör­tíma­bilið. Flokkurinn hlaut 30,8 prósent í kosningunum vorið 2018 en mælist nú með 19,4 prósent og fengi fimm menn kjörna.

Sam­fylkingin mælist nú með 23,3 prósent og bætir að­eins við sig frá síðustu könnun en mælist tölu­vert lægri en í kosningum þegar flokkurinn fékk 25,9 prósent.

Flokkarnir sem eiga í meiri­hluta­sam­starfi í borginni halda meiri­hluta sínum sam­kvæmt könnuninni, mælast saman­lagt með 52,2 prósent og fengju 12 af 23 borgar­full­trúum.

Píratar mælast með 15,9 prósent og mælast ör­lítið lægri en í síðustu könnun en bæta þó veru­lega við sig frá kosningum þegar flokkurinn fékk 7,7 prósent.

Fram­sóknar­flokkurinn er enn á flugi og mælist með 12,4 prósent og bætir við sig tveimur og hálfu prósentu­stigi frá síðustu könnun Frétta­blaðsins. Flokkurinn fengi þrjá menn kjörna sam­kvæmt þessari niður­stöðu.

Sósíal­istar bæta tölu­vert við fylgi sitt frá síðustu könnun og mælast nú með 7,2 prósent.

Flokkur fólksins mælist með 6,6 prósent, dalar tölu­vert frá síðustu könnun en flokkurinn mælist þó enn tölu­vert yfir kjör­fylgi sínu. Við­reisn tapar öðrum af sínum tveimur borgar­full­trúum sam­kvæmt könnuninni. Flokkurinn fékk 8,2 prósent í kosningunum en mælist nú með 6,7 prósent sem er hálfu prósentu­stigi lægra en í síðustu könnun.

Vinstri græn tapa því flugi sem hreyfingin var á í síðustu könnun þegar flokkurinn mældist með 10 prósent. Fylgið stendur nú í 6,3 prósentum.

Líkt og í síðustu könnun Frétta­blaðsins mælist Mið­flokkurinn ekki með mann í borgar­stjórn en fylgi flokksins mælist nú 2,1 prósent.

Þannig skiptast borgarfulltrúar milli flokka

Sam­kvæmt könnuninni fengi Sam­fylkingin sex menn í borgar­stjórn, Píratar fengju fjóra og Við­reisn og Vinstri græn fengju sinn manninn hvor. Meiri­hlutinn héldi því velli með tólf borgar­full­trúa. Sjálf­stæðis­flokkurinn fengi fimm menn, Fram­sóknar­flokkurinn þrjá, Sósíal­istar tvo og Flokkur fólksins einn full­trúa.

Tæpast stendur Trausti Breið­fjörð, annar tveggja full­trúa Sósíal­ista, samkvæmt könnuninni en síðust inn á undan honum eru Björn Gíslason, Sjálf­stæðis­flokki og Guð­ný Maja Ríba, Sam­fylkingunni.

Pawel Bar­toszek í Við­reisn er ekki inni sam­kvæmt könnuninni er er hins vegar næstur inn og á eftir honum sjöundi borgar­full­trúi full­trúi Sam­fylkingarinnar.

Rúmur fimmtungur þeirra sem tók þátt í könnuninni, eða 21 prósent, hefur ekki gert upp hug sinn eða vildi ekki taka af­stöðu til spurningarinnar.

Framsókn fær fylgið frá Sjálfstæðisflokki

Í könnuninni var einnig spurt hvaða flokk þátt­tak­endur kusu í síðustu kosningum en með því má rýna í hreyfingu á fylginu milli flokka. Þannig kemur í ljós að aukið fylgi Fram­sóknar­flokksins kemur einkum frá kjós­endum Sjálf­stæðis­flokksins. Þrettán prósent þeirra sem kusu Sjálf­stæðis­flokkinn síðast segjast ætla að kjósa Fram­sókn núna. Þessir fyrrverandi kjósendur Sjálfstæðisflokksins mynda rúman þriðjung þeirra sem ætla að kjósa Fram­sókn.

Mesta flokks­hollustan er meðal kjós­enda Sósíal­ista og og Flokks fólksins en yfir 85 prósent kjós­enda beggja flokka hyggjast verja at­kvæði sínu með sama hætti í næstu kosningum.

Flokks­hollusta Sjálf­stæðis­flokksins er að­eins lægri, en 73 prósent þeirra sem kusu flokkinn síðast hyggjast kjósa hann aftur nú.

Um 70 prósent kjós­enda Pírata og 64 prósent kjós­enda Sam­fylkingarinnar hyggst kjósa sama flokkinn aftur. Ljóst er að kjós­endur þessa tveggja flokka keppast tölu­vert um laust fylgi en þrettán prósent þeirra sem kusu Sam­fylkinguna síðast ætla að kjósa Pírata nú og að sama skapi hyggjast 11 prósent þeirra sem kusu Pírata síðast kjósa Sam­fylkinguna nú.

Lítil flokkshollusta í Viðreisn og VG

Kjós­endur Við­reisnar eru ekki sér­lega flokks­hollir ef marka má niður­stöður könnunarinnar. Að­eins 41 prósent þeirra sem kusu flokkinn síðast hyggst kjósa hann nú. Flokkurinn klípur fylgi af ýmsum öðrum flokkum en þeir kjós­endur flokksins sem hyggjast nú leita á önnur mið fara í flestum til­vikum til Sjálf­stæðis­flokksins en einnig til Fram­sóknar­flokksins og Pírata.

Svipaða sögu er að segja af Vinstri grænum en 51 prósent þeirra sem kusu hreyfinguna síðast hyggjast kjósa hana aftur nú.

Könnunin var fram­kvæmd dagana 13. til 26. apríl. Um net­könnun var að ræða meðal könnunar­hóps Prósents. Úr­takið var 1.800 ein­staklingar, 18 ára og eldri, og svar­hlut­fallið var 53 prósent.

Dagur langvinsælastur

Frétta­blaðið leitaði einnig svara um hvern borgar­búar vilja helst sjá sem borgar­stjóra. Þar hefur sitjandi borgar­stjóri nokkra yfir­burði en 30 prósent að­spurðra vilja helst hafa hann á­fram í því em­bætti.

Dagur B Eggertsson hefur verið borgarstjóri í Reykjavík í átta ár.
Fréttablaðið/Valli


Dagur nýtur yfir­gnæfandi stuðnings í sínum flokki en 89 prósent kjós­enda Sam­fylkingarinnar velja hann. Kjós­endur annarra flokka í meiri­hluta­sam­starfinu nefna hann einnig oft. Þannig velja 28 prósent kjós­enda Pírata Dag sem borgar­stjóra og 40 prósent kjós­enda Vinstri grænna.

Aðeins helmingur kjósenda segist helst vilja sjá oddvita flokksis, Líf Magneudóttur, sem borgarstjóra í Reykjavík.

Hildur Björns­dóttir, oddviti lista Sjálfstæðisflokksins, nýtur 19 prósenta stuðnings í stöðu borgarstjóra og þrettán prósent þátt­tak­enda sögðust vilja sjá Einar Þor­steins­son, odd­vita Fram­sóknar­flokksins, sem borgarstjóra. Níu prósent vilja Dóru Björt Guð­jóns­dóttur, odd­vita Pírata, sjö prósent Sönnu Magda­lenu Mörtu­dóttur, Sósíal­istum og fimm prósent nefndu Kol­brúnu Baldurs­dóttur, odd­vita Flokks fólksins. Aðrir odd­vitar fengu innan við fimm prósenta stuðning í könnuninni.

Könnunin var framkvæmd dagana 13. til 26. apríl. Um netkönnun var að ræða meðal könnunarhóps Prósents. Úrtakið var 1.800 einstaklingar, 18 ára og eldri, og svarhlutfallið var 53 prósent.