Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er komið niður fyrir 20 prósent samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Prósent framkvæmdi fyrir Fréttablaðið. Fylgi flokksins hefur ekki mælst lægra í könnunum Prósents allt kjörtímabilið. Flokkurinn hlaut 30,8 prósent í kosningunum vorið 2018 en mælist nú með 19,4 prósent og fengi fimm menn kjörna.
Samfylkingin mælist nú með 23,3 prósent og bætir aðeins við sig frá síðustu könnun en mælist töluvert lægri en í kosningum þegar flokkurinn fékk 25,9 prósent.
Flokkarnir sem eiga í meirihlutasamstarfi í borginni halda meirihluta sínum samkvæmt könnuninni, mælast samanlagt með 52,2 prósent og fengju 12 af 23 borgarfulltrúum.

Píratar mælast með 15,9 prósent og mælast örlítið lægri en í síðustu könnun en bæta þó verulega við sig frá kosningum þegar flokkurinn fékk 7,7 prósent.
Framsóknarflokkurinn er enn á flugi og mælist með 12,4 prósent og bætir við sig tveimur og hálfu prósentustigi frá síðustu könnun Fréttablaðsins. Flokkurinn fengi þrjá menn kjörna samkvæmt þessari niðurstöðu.
Sósíalistar bæta töluvert við fylgi sitt frá síðustu könnun og mælast nú með 7,2 prósent.
Flokkur fólksins mælist með 6,6 prósent, dalar töluvert frá síðustu könnun en flokkurinn mælist þó enn töluvert yfir kjörfylgi sínu. Viðreisn tapar öðrum af sínum tveimur borgarfulltrúum samkvæmt könnuninni. Flokkurinn fékk 8,2 prósent í kosningunum en mælist nú með 6,7 prósent sem er hálfu prósentustigi lægra en í síðustu könnun.
Vinstri græn tapa því flugi sem hreyfingin var á í síðustu könnun þegar flokkurinn mældist með 10 prósent. Fylgið stendur nú í 6,3 prósentum.
Líkt og í síðustu könnun Fréttablaðsins mælist Miðflokkurinn ekki með mann í borgarstjórn en fylgi flokksins mælist nú 2,1 prósent.
Þannig skiptast borgarfulltrúar milli flokka
Samkvæmt könnuninni fengi Samfylkingin sex menn í borgarstjórn, Píratar fengju fjóra og Viðreisn og Vinstri græn fengju sinn manninn hvor. Meirihlutinn héldi því velli með tólf borgarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn fengi fimm menn, Framsóknarflokkurinn þrjá, Sósíalistar tvo og Flokkur fólksins einn fulltrúa.

Tæpast stendur Trausti Breiðfjörð, annar tveggja fulltrúa Sósíalista, samkvæmt könnuninni en síðust inn á undan honum eru Björn Gíslason, Sjálfstæðisflokki og Guðný Maja Ríba, Samfylkingunni.
Pawel Bartoszek í Viðreisn er ekki inni samkvæmt könnuninni er er hins vegar næstur inn og á eftir honum sjöundi borgarfulltrúi fulltrúi Samfylkingarinnar.
Rúmur fimmtungur þeirra sem tók þátt í könnuninni, eða 21 prósent, hefur ekki gert upp hug sinn eða vildi ekki taka afstöðu til spurningarinnar.
Framsókn fær fylgið frá Sjálfstæðisflokki
Í könnuninni var einnig spurt hvaða flokk þátttakendur kusu í síðustu kosningum en með því má rýna í hreyfingu á fylginu milli flokka. Þannig kemur í ljós að aukið fylgi Framsóknarflokksins kemur einkum frá kjósendum Sjálfstæðisflokksins. Þrettán prósent þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn síðast segjast ætla að kjósa Framsókn núna. Þessir fyrrverandi kjósendur Sjálfstæðisflokksins mynda rúman þriðjung þeirra sem ætla að kjósa Framsókn.
Mesta flokkshollustan er meðal kjósenda Sósíalista og og Flokks fólksins en yfir 85 prósent kjósenda beggja flokka hyggjast verja atkvæði sínu með sama hætti í næstu kosningum.
Flokkshollusta Sjálfstæðisflokksins er aðeins lægri, en 73 prósent þeirra sem kusu flokkinn síðast hyggjast kjósa hann aftur nú.
Um 70 prósent kjósenda Pírata og 64 prósent kjósenda Samfylkingarinnar hyggst kjósa sama flokkinn aftur. Ljóst er að kjósendur þessa tveggja flokka keppast töluvert um laust fylgi en þrettán prósent þeirra sem kusu Samfylkinguna síðast ætla að kjósa Pírata nú og að sama skapi hyggjast 11 prósent þeirra sem kusu Pírata síðast kjósa Samfylkinguna nú.
Lítil flokkshollusta í Viðreisn og VG
Kjósendur Viðreisnar eru ekki sérlega flokkshollir ef marka má niðurstöður könnunarinnar. Aðeins 41 prósent þeirra sem kusu flokkinn síðast hyggst kjósa hann nú. Flokkurinn klípur fylgi af ýmsum öðrum flokkum en þeir kjósendur flokksins sem hyggjast nú leita á önnur mið fara í flestum tilvikum til Sjálfstæðisflokksins en einnig til Framsóknarflokksins og Pírata.
Svipaða sögu er að segja af Vinstri grænum en 51 prósent þeirra sem kusu hreyfinguna síðast hyggjast kjósa hana aftur nú.
Könnunin var framkvæmd dagana 13. til 26. apríl. Um netkönnun var að ræða meðal könnunarhóps Prósents. Úrtakið var 1.800 einstaklingar, 18 ára og eldri, og svarhlutfallið var 53 prósent.
Dagur langvinsælastur
Fréttablaðið leitaði einnig svara um hvern borgarbúar vilja helst sjá sem borgarstjóra. Þar hefur sitjandi borgarstjóri nokkra yfirburði en 30 prósent aðspurðra vilja helst hafa hann áfram í því embætti.

Dagur nýtur yfirgnæfandi stuðnings í sínum flokki en 89 prósent kjósenda Samfylkingarinnar velja hann. Kjósendur annarra flokka í meirihlutasamstarfinu nefna hann einnig oft. Þannig velja 28 prósent kjósenda Pírata Dag sem borgarstjóra og 40 prósent kjósenda Vinstri grænna.
Aðeins helmingur kjósenda segist helst vilja sjá oddvita flokksis, Líf Magneudóttur, sem borgarstjóra í Reykjavík.

Hildur Björnsdóttir, oddviti lista Sjálfstæðisflokksins, nýtur 19 prósenta stuðnings í stöðu borgarstjóra og þrettán prósent þátttakenda sögðust vilja sjá Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknarflokksins, sem borgarstjóra. Níu prósent vilja Dóru Björt Guðjónsdóttur, oddvita Pírata, sjö prósent Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, Sósíalistum og fimm prósent nefndu Kolbrúnu Baldursdóttur, oddvita Flokks fólksins. Aðrir oddvitar fengu innan við fimm prósenta stuðning í könnuninni.
Könnunin var framkvæmd dagana 13. til 26. apríl. Um netkönnun var að ræða meðal könnunarhóps Prósents. Úrtakið var 1.800 einstaklingar, 18 ára og eldri, og svarhlutfallið var 53 prósent.