Sjálfstæðisflokkurinn hefur styrkt stöðu sína verulega á sviði utanríkismála eftir breytingar á skipun fulltrúa í fastanefndum þingsins, sem tilkynntar voru fyrr í vikunni. Auk þess að stýra ráðuneyti utanríkismála fara Sjálfstæðismenn nú bæði með formennsku og varaformennsku í utanríkismálanefnd og eiga þrjá fulltrúa í nefndinni á móti einum fulltrúa allra annarra flokka í nefndinni.

Töluverðar hrókeringar voru gerðar í nefndum þingsins eftir að Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði sig úr Vinstri grænum stuttu áður en þing kom saman til haustþings. Rósa á enn sæti í utanríkismálanefnd, en sem þingmaður utan flokka. Þá kemur Njáll Trausti Friðbertsson, Sjálfstæðisflokki, inn í nefndina í stað Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur sem tekur hans sæti í fjárlaganefnd. Njáll Trausti tekur við varaformennsku í nefndinni af Rósu Björk.

Eftir breytingar í nefndum þingsins á Sjálfstæðisflokkurinn þrjá aðalmenn í utanríkismálanefnd, formanninn Sigríði Á. Andersen, Njál Trausta og Bryndísi Haraldsdóttur. Aðrir flokkar á þingi eiga aðeins einn fulltrúa, þar á meðal Vinstri græn, en Ari Trausti Guðmundsson er eini þingmaður flokksins í nefndinni eftir breytingarnar.

„Auðvitað eru utanríkismálin mikilvæg en það eru fjármálin svo sannarlega líka, nú á þessum tímum,“ segir Steinunn Þóra Árnadóttir, þingkona Vinstri grænna, í samtali við Fréttablaðið. Hún segir að eftir breytingarnar eigi Vinstri græn tvo menn í fjárlaganefnd en fyrir breytingarnar hafi þau aðeins átt einn fulltrúa í þeirri nefnd en Sjálfstæðisflokkurinn þrjá.

Rósa Björk, Steinunn Þóra og Kolbeinn Óttarsson Proppé voru samherjar í þingflokki VG þar Rósa sagði sig úr flokknum. Það voru ekki síst utanríkismálin sem voru henni erfið.
Anton Brink.

Ólík afstaða Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins til utanríkismála var meðal ástæðna þess að mjög skiptar skoðanir voru um samstarfið í grasrótum beggja flokka. Vinstri græn hafa frá stofnun flokksins verið andvíg þátttöku Íslands í Atlandshafsbandalaginu en Sjálfstæðismenn lagt mikla áherslu á samstarfið í NATO sem lykilþátt í varnar- og þjóðaröryggisstefnu Íslands.