Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð greiddu í dag atkvæði gegn áframhaldandi ráðningu Jóns Björns Hákonarsonar, oddvita Framsóknarflokksins í bæjarfélaginu, sem bæjarstjóra til ársins 2026.

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að ráðin verði bæjarstjóri á faglegum forsendum,“ sögðu fulltrúar flokksins í bókun vegna ráðningarinnar.

„Þá gerir Sjálfstæðisflokkurinn alvarlegar athugasemdir við að ekki liggi fyrir skriflegur ráðningarsamningur áður en tekin er afstaða til ráðningarinnar. Ekki hefur verið kynntur ráðningarsamningur fyrir bæjarfulltrúum áður en málið er tekið fyrir sem verður að teljast sérkennilegt þar sem um endurráðningu er að ræða og því ætti að vera hægur leikur að vera með ráðningarsamning bæjarstjóra sem fylgiskjal málsins. Þar af leiðandi eru engin gögn um ráðningarkjör, gildistíma, biðlaunarétt eða annað er varðar ráðninguna. Vandséð er að hægt sé að taka efnislega ákvörðun um ráðningu bæjarstjóra án þess að ráðningarsamningur hafi verið kynntur sem hægt sé að taka afstöðu til á þessu stigi.“

„Að öðru leyti óskar Sjálfstæðisflokkurinn Jóni Birni Hákonarsyni velfarnaðar í starfi bæjarstjóra Fjarðabyggðar.“

Jón Björn var upphaflega ráðinn sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar í september 2020. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við atkvæðagreiðsluna við fyrstu ráðningu hans. Bæði þá og nú var Jón kjörinn bæjarstjóri af meirihluta Framsóknar og Fjarðalistans í bæjarráðinu.