Vörður, fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, ákvað á fjölmennum fundi í kvöld að valið verði á lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar með opnu prófkjöri sem fara mun fram annað hvort 12. eða 19. mars næstkomandi.

Á þriðja hundrað félaga mætti á fundinn og var framangreind niðurstaða samþykkt samhljóða.

Dagsetning og framboðsfrestur verður ákveðin af yfirkjörstjórn á næstu dögum og auglýst sérstaklega.

Rétt til þátttöku í prófkjörinu hafa allir fullgildir meðlimir sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík sem þar eru búsettir og þeir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, sem eiga munu kosningarrétt í Reykjavík við kosningarnar í vor og undirritað hafa inntökubeiðni í sjálfstæðisfélag í Reykjavík fyrir lok kjörfundar og teljast þar með komnir á flokksskrá.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Varðar.

Töluvert rót hefur verið á ákvörðunum Varðar um val á lista. Ákveðið var á átakafundi fyrir áramót að fara skyldi í leiðtogakjör og uppstillingu. Heimildir blaðsins herma að stuðningsmenn Eyþórs Arnalds hafi þrýst á þá tillögu og fengið samþykkta. Ákvörðunin var hins vegar aldrei borin undir fulltrúaráðið allt, eins og skylt er, en Eyþór dró framboð sitt til baka skömmu eftir umræddan stjórnarfund.

Á öðrum stjórnarfundi sem haldinn var í upphafi þessa mánaðar var samþykkt að leggja til að prófkjör yrði haldið í stað, leiðtogakjörs og uppstillingar.

Þá var samþykkt eftir töluverða rekistefnu að afmarka skyldi kjörskrá við flokksskrá tveimur vikum fyrir kjördag.

Af tilkynningu frá flokknum í dag er ljóst að fulltrúaráðið hefur fellt þessa tillögu stjórnarinnar.