Stjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hefur fallið frá því að halda leiðtogakjör fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor, eins og ákveðið var á hitafundi í stjórninni í desember.

Stjórnin kom saman síðdegis í dag og ákveðið var að leggja til að valið verði á lista flokksins með hefðbundnu prófkjöri. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Boðað hefur verið til fulltrúaráðsfundar í Valhöll fimmtudaginn 10. febrúar klukkan fimm síðdegis, þar sem borin verður upp tillaga stjórnar um að boða til prófkjörs 12. mars.

Í tölvupósti til meðlima í fulltrúaráði kemur einnig fram að samkvæmt tillögu stjórnar verði kjörskrá afmörkuð við flokksskrá tveimur vikum fyrir kjördag.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst hefur aldrei í sögu flokksins svo skammur tími verið gefinn til að skrá nýja félaga í flokkinn áður en prófkjörið fer fram.

Nokkrar umræður sköpuðust um þennan skamma frest í stjórninni og heimildir blaðsins herma að hann hafi verið samþykktur með mjög naumum meirihluta.

Mikil óánægja blossaði upp í flokknum eftir fyrrnefndan hitafund í desember og ákvörðun um leiðtogakjör. En eins og Fréttablaðið greindi frá var ákvörðun um leiðtogakjör fyrir borgarstjórnarkosningarnar alls ekki á dagskrá fundarins og kom hluti stjórnarmanna af fjöllum þegar hún var borin upp og samþykkt.

Ákvörðunina þurfti að bera undir fulltrúaráðið og stóð til að gera það í byrjun janúar en fundur í því skyni hvar hvorki haldinn né til hans boðað.

Í kjölfar fundarins fagnaði Eyþór Arnalds ákvörðun stjórnarinnar en Hildur Björnsdóttur lýsti óánægju með hana en sjálf vildi hún að farið yrði í hefðbundið prófkjör eins og tíðkast í flokknum í stað leiðtogakjörs og uppstillingar.

Nokkrum dögum eftir þessa umdeildu ákvörðun, hætti Eyþór Arnalds við boðað framboð til forystu fyrir flokkinn og síðan þá hefur Hildur verið eini frambjóðandi flokksins sem gefur kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Fullkomin óvissa hefur ríkt í flokknum um hvernig vali á lista flokksins fyrir kosningarnar verði háttað, en fundur stjórnar Varðar í dag var fyrsti fundur hennar frá fyrrnefndum hitafundi.

Fréttablaðið hafði eftir flokksmönnum á þriðjudag að algert stjórnleysi hafi ríkt hjá Verði undanfarnar vikur enda flestir aðrir flokkar búnir að boða prófkjör eða annars konar flokksval og barátta frambjóðenda farin af stað.

Fréttin hefur verið uppfærð en í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum kemur fram að tillaga stjórnar um að boða til almenns prófkjörs þann 12. mars næstkomandi verði tekin fyrir á fundi fulltrúaráðs í Valhöll á fimmtudaginn kemur, 10. febrúar.