193 milljóna króna halli var á A-hluta Seltjarnanesbæjar á fyrri helmingi ársins og var hann þrisvar sinnum meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Uppsafnaður halli á síðustu fimm árum er nú kominn yfir 800 milljónir króna.

Staðan skánar þó milli ára en á fyrri helmingi 2019 var rekstrarniðurstaða A-hluta neikvæð um 258 milljónir króna. Þetta kemur fram í árshlutareikningi sveitarfélagsins.

Kallar eftir auknu samráði

Karl Pétur Jónsson, oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn, gagnrýnir sitjandi meirihluta fyrir samráðsleysi og kallar eftir því að flokkspólitísk átök verði lögð til hliðar nú þegar sveitarfélagið standi frammi fyrir risastórum áskorunum.

„Það er ekkert raunverulegt samráð í gangi um fjárhagsáætlanir. Ef það verður ekki gripið hressilega í taumana á ábyrgan og yfirvegaðan hátt þar sem öll bæjarstjórnin kemur að málum þá getur farið illa.“

Hann fullyrðir að af 80 milljón króna halla umfram áætlanir á þessu ári megi rekja um 20 til 30 milljónir til aukins kostnaðar vegna COVID-19.

„En að öðru leyti eru áætlanir meirihlutans ekki að ganga upp og hafa ekki gert það í sex ár.“

180 þúsund krónur á hvern íbúa

Karl segir að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ekki enn lagt fram áætlanir sem sýni hvernig meirihlutinn hyggist koma jafnvægi á reksturinn.

„Staðan er búin að vera vond í nokkur ár og heldur áfram að versna. Bæði hefur skuldahlutfallið hækkað verulega og er nú 115% af tekjum bæjarins. Svo hefur bærinn verið rekinn með tapi undanfarin fimm og hálft ár og uppsafnað tap A-hluta er komið upp í 820 milljónir.“

Það samsvari tæplega 180 þúsund krónum á hvern íbúa Seltjarnarness. Þá hafi skuldir rokið upp frá árinu 2014 úr 332 þúsund krónum á íbúa í eina milljón á mann.

Staðan svipað slæm og á Akureyri

Á bæjarstjórnarfundi í gær bar Karl stöðu sveitarfélagsins saman við fjárhagsstöðu Akureyrar en bæjarfulltrúar þar gáfu út á dögunum að þeir hafi myndað samstjórn allra flokka til að bregðast við fordæmalausum hallarekstri.

„Mér finnst það athyglisverð hugmynd að fólk í sveitarfélögum sem standi frammi fyrir risastórum áskorunum leggi hversdagslegan ágreining til hliðar, fókusi á stóru myndina og reyna að finna lausn á þeim.“

Heildarskuldir 115% af tekjum

„Við erum bara á svipuðum stað og Akureyringar og þar greip fólk til fordæmalausra ráðstafana í þessari viku.“

Í því samhengi séu heildarskuldir Akureyringa um 97% af tekjum samanborið við 115% á Seltjarnarnesi.

Þá hafi halli af A-hluta á fyrstu sex mánuðum ársins verið 57 þúsund krónur á hvern íbúa á Akureyri en 41 þúsund á Seltjarnarnesi.

„Hafi einhvern tímann í sjötíu ára sögu meirihlutaræðis Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Seltjarnarness verið ástæða til að leita af auðmýkt eftir alvöru samvinnu við minnihlutann um lausn erfiðra mála þá er það ef til vill nú.“

Fréttin hefur verið uppfærð: Í fyrri útgáfu sagði að uppsafnað tap á hvern íbúa Seltjarnarnesbæjar væri 1,8 milljónir króna. Hin rétta upphæð er 180.000 krónur.