Reykjavík Sveitarstjórnarkosningar fara fram 14. maí næstkomandi, eftir tæpa sjö mánuði. Þótt ekki fari mikið fyrir undirbúningi flokkanna út á við er samtalið farið á fullt inni í flokkunum, ýmist formlega eða óformlega milli flokksfélaga.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er ekkert fararsnið á borgarstjóranum Degi B. Eggertssyni úr borgarmálunum, en vangaveltur um pólitíska framtíð hans fóru á flug vegna veikinda hans fyrr á kjörtímabilinu. Heimildir blaðsins herma hins vegar að hann sé við góða heilsu og muni gefa kost á sér til að leiða lista Samfylkingarinnar fyrir næstu kosningar. Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður flokksins, er án efa hvergi hætt og ekki er annað vitað en Skúli Helgason og Hjálmar Sveinsson verði einnig í kjöri.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er Rósa Björk að íhuga hugsanlegt framboð í borginni.
Mynd/Andri Marinó

Þá herma heimildir blaðsins að Rósa Björk Brynjólfsdóttir íhugi stöðu sína og hugsanlegt framboð í borginni, en það hlýtur einnig að velta á því hverjar lyktir verða í óvissunni um niðurstöður nýafstaðinna þingkosninga, þar sem litlu munaði að hún næði inn á þing sem jöfnunarþingmaður. Er hún í hópi þeirra sem kært hafa niðurstöðurnar til Alþingis.

Óánægja með Eyþór

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, er einnig sagður harður á að halda áfram. Þeir Sjálfstæðismenn sem Fréttablaðið ræddi við hafa hins vegar áhyggjur af stöðu flokksins í borginni og sú óánægja hefur ekki síður gert vart við sig meðal þeirra Sjálfstæðismanna sem studdu Eyþór í oddvitakjöri flokksins fyrir síðustu kosningar.

Sjálfstæðismenn hafa áhyggjur af sundurlyndi meðal borgarfulltrúa sinna.
Fréttablaðið/Ernir

Óánægjan lýtur bæði að forystu Eyþórs og því hve ósamstilltur borgarstjórnarhópur flokksins hefur verið á kjörtímabilinu. Hafa flokksmenn einnig nefnt að þreytu gæti meðal borgarbúa í garð meirihlutans og því sé kjörið tækifæri til að ná borginni og bagalegt að flokkurinn sé ekki öflugri.

„Þetta veltur allt á því hvort Eyþór og hópurinn hans nái að rétta sig af. Það vantar ekkert mikið upp á en það þarf að gerast strax, ef við eigum að ná árangri í vor,“ varð einum viðmælanda blaðsins að orði. Aðrir viðmælendur telja ljóst að fullreynt sé með Eyþór og skipta þurfi um oddvita. Þar er helst nefnd Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi sem var í 2. sæti á lista flokksins fyrir síðustu kosningar. Fleiri hafa verið nefndir til sögunnar sem hugsanlegir oddvitar, þar á meðal fólk sem náði ekki kjöri í prófkjöri flokksins fyrir nýafstaðnar þingkosningar. Er Sigríður Á. Andersen einna helst nefnd.

Vill lýðræði í Viðreisn

Áhugaverð þróun er að verða í Viðreisn en borgarfulltrúi flokksins, Pawel Bartoszek tilkynnti á dögunum að hann gæfi áfram kost á sér í borgarmálin og myndi því sækjast eftir lista á sæti Viðreisnar fyrir næstu borgarstjórnarkosningar.

Viðreisn hefur aldrei haldið prófkjör, hvorki fyrir þingkosningar né sveitarstjórnarkosningar, en nú telur Pawel að rétt sé að halda prófkjör í flokknum: „Ég tel líka að það sé kominn tími á að Viðreisnarfólk fái að velja frambjóðendur flokksins í lýðræðislegu prófkjöri,“ segir Pawel í framboðstilkynningu sinni á Facebook.

Pawel Bartoszek og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fréttablaðið/Anton Brink

Pawel var stillt upp í 2. sæti á lista flokksins fyrir síðustu kosningar. Leitað var dyrum og dyngjum að oddvita til að leiða listann og úr varð að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir leiddi hann. Herma heimildir Fréttablaðsins að hún muni áfram sækjast eftir því. Gera má ráð fyrir að Pawel hafi einnig verið meðvitaður um það, þegar hann sendi prófkjörsóskir sínar út í kosmósið.

Ekkert fararsnið á Líf

Þá er ekkert fararsnið á Líf Magneudóttur, eina borgarfulltrúa Vinstri grænna, að því er Fréttablaðið kemst næst. Flokkurinn hefur átt erfitt uppdráttar í borginni undanfarið og náði aðeins einum borgarfulltrúa inn í síðustu kosningum þrátt fyrir að borgarfulltrúum hefði þá verið fjölgað úr 15 í 23.

Flokksmenn sem Fréttablaðið ræddi við telja þó að Líf verði ekki einni kennt um dapurt gengi síðast. Mikið hafði gengið á í flokknum stuttu fyrir borgarstjórnarkosningar og afar umdeild ákvörðun formanns flokksins um að fara í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum, var enn þrætuepli í flokknum. Stjórnin hafi hins vegar ekki reynst flokknum eins erfið eftir því sem frá leið og því gæti fylgi flokksins í borginni vel jafnað sig á ný.

Líkt og Vinstri græn og Viðreisn þykja borgarfulltrúar Pírata líklegir til að vera áfram í kjöri en Dóra Björt Guðjónsdóttir hefur verið vinsæl í eigin röðum og Alexandra Briem þykir hafa staðið sig vel frá því hún tók aðalsæti eftir að Sigurborg Ósk Haraldsdóttir dró sig í hlé fyrr á þessu ári.

Ekkert fararsnið er á Líf Magneudóttir.
Fréttablaðið/Ernir

Meðal annarra sem orðaðir eru við framboð fyrir Pírata er Lenya Rún Taha Karim, en mjög litlu munaði að hún næði kjöri á þing fyrir flokkinn í nýliðnum þingkosningum.

Allt getur gerst

Auk Vinstri grænna fengu þrír flokkar til viðbótar einn borgarfulltrúa kjörinn, Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkur Íslands.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, nýtur fulls trausts formannsins til að fara aftur fram fyrir flokkinn í borginni, þrátt fyrir að flokkurinn hafi tapað þingmönnum sínum í Reykjavík undir kosningastjórn Vigdísar.

Erfitt er að áætla gengi þessara flokka í borgarstjórnarkosningunum enda fengu þeir mjög ólíka útreið í nýafstöðnum kosningum. Þá má ekki útiloka að kosningasigur Framsóknarflokksins í síðasta mánuði skili sér aftur í borginni, en þar hafa Framsóknarmenn átt erfitt uppdráttar undanfarin kjörtímabil og eiga engan borgarfulltrúa.