„Sjálf­stæðis­flokkurinn á engan raun­hæfan kost á setu í ríkis­stjórn nema VG eigi þar hlut að máli og fari með for­ystu,“ skrifar Þor­steinn Páls­son, fyrr­verandi for­maður Sjálf­stæðis­flokksins og for­sætis­ráð­herra í viku­legum pistli sínum í Frétta­blaðinu í dag. Hann segir VG bein­línis ráða því hvort Sjálf­stæðis­flokkurinn hafi völdin fram­vegis, eða ekki.

Þor­steinn bendir á að bak­land flokkanna horfi ó­líkum augum á frekara sam­starf þessara tveggja flokka sem eiga að heita á hvorum enda stjórn­málanna. Sjálf­stæðis­menn vilji í mun ríkara mæli halda sam­starfinu á­fram en vinstri­mennirnir í VG. Á­stæðan sé á að giska aug­ljós, skrifar Þor­steinn og yddar stíl­vopnið: „Eftir síðustu kosningar var það frjálst val (fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn), en nú er það þvinguð staða.“

Og fyrr­verandi for­maður stærsta flokks þjóðarinnar út­skýrir enn frekar: „Fyrir vikið er Katrín Jakobs­dóttir í þeirri merki­legu stöðu að geta þrýst sjálf­stæðis­mönnum til mál­efna­legrar eftir­gjafar, hugsan­lega um aukin út­gjöld. Það styrkir hana að geta bent þeim á að kjós­endur VG kalli eftir því að hún snúi sér annað.“

Skrif Þor­steins má túlka sem svo að Katrín hafi því Sjálf­stæðis­flokkinn eins og strengja­brúðu í hendi sér: „Sjálf­stæðis­flokkurinn verður þá að meta hvort rétt sé að fórna mál­efnum eða fórna ríkis­stjórnar­setu. Stærsti hluti fylgj­enda hans virðist kjósa fórnir gagn­vart VG.“

Stjórn­mála­skýringu sína botnar Þor­steinn á þennan veg: „Flokkarnir sem liggja næst miðjunni, Fram­sókn, Sam­fylking og Við­reisn, eru ó­líkir um margt. En það sem helst gæti brotið þessa lykil­stöðu VG upp er að miðjan styrkist á kostnað jaðranna.“

Ríkisráðsfundur fór fram á Bessastöðum í dag.
Fréttablaðið/Eyþór