„Sjálfstæðisflokkurinn á engan raunhæfan kost á setu í ríkisstjórn nema VG eigi þar hlut að máli og fari með forystu,“ skrifar Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra í vikulegum pistli sínum í Fréttablaðinu í dag. Hann segir VG beinlínis ráða því hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi völdin framvegis, eða ekki.
Þorsteinn bendir á að bakland flokkanna horfi ólíkum augum á frekara samstarf þessara tveggja flokka sem eiga að heita á hvorum enda stjórnmálanna. Sjálfstæðismenn vilji í mun ríkara mæli halda samstarfinu áfram en vinstrimennirnir í VG. Ástæðan sé á að giska augljós, skrifar Þorsteinn og yddar stílvopnið: „Eftir síðustu kosningar var það frjálst val (fyrir Sjálfstæðisflokkinn), en nú er það þvinguð staða.“
Og fyrrverandi formaður stærsta flokks þjóðarinnar útskýrir enn frekar: „Fyrir vikið er Katrín Jakobsdóttir í þeirri merkilegu stöðu að geta þrýst sjálfstæðismönnum til málefnalegrar eftirgjafar, hugsanlega um aukin útgjöld. Það styrkir hana að geta bent þeim á að kjósendur VG kalli eftir því að hún snúi sér annað.“
Skrif Þorsteins má túlka sem svo að Katrín hafi því Sjálfstæðisflokkinn eins og strengjabrúðu í hendi sér: „Sjálfstæðisflokkurinn verður þá að meta hvort rétt sé að fórna málefnum eða fórna ríkisstjórnarsetu. Stærsti hluti fylgjenda hans virðist kjósa fórnir gagnvart VG.“
Stjórnmálaskýringu sína botnar Þorsteinn á þennan veg: „Flokkarnir sem liggja næst miðjunni, Framsókn, Samfylking og Viðreisn, eru ólíkir um margt. En það sem helst gæti brotið þessa lykilstöðu VG upp er að miðjan styrkist á kostnað jaðranna.“
