Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin mælast áfram stærstu flokkarnir í nýrri könnun sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið. Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 20,3 prósent og Samfylkingin 17,2.

Báðir flokkarnir bæta við sig fylgi frá síðustu könnun sem gerð var um miðjan janúar. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig rúmu prósentustigi en Samfylkingin tæpu prósentustigi.

Píratar koma næstir með 12,7 prósent en voru með 14 prósent í janúar. Viðreisn bætir við sig rúmu prósentustigi og er nú með 11,3 prósent. Miðflokkurinn missir rúm tvö prósentustig og mælist með 8,9 prósent.

Vinstri græn bæta við sig hálfu prósentustigi frá því í janúar og eru með 8,8 prósent. Það er vel undir því fylgi sem flokkurinn hefur mælst með undanfarið ár. Framsóknarflokkurinn bætir aðeins við sig milli kannanna og er nú með 8,2 prósent.

Flokkur fólksins fer upp fyrir Sósíalistaflokkinn og kemstu nú yfir fimm prósenta markið. Flokkurinn mælist með 6,4 prósent í könnuninni sem er 1,5 prósentustigi meira en síðast. Sósíalistaflokkurinn sem var með 5,2 prósent í janúar mælist nú með 4,5 prósent.

Hér má sjá hvernig fylgi flokkanna hefur þróast í könnunum Zenter undanfarið ár. Rauðu súlurnar tákna nýjustu könnunina.

Könnun Zenter sem er netkönnun var gerð á tímabilinu 28. febrúar – 4. mars. Í úrtaki voru 2.300 manns 18 ára og eldri en svarhlutfall var 56 prósent. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.

Munur milli kynja hjá VG og Miðflokki

Einu flokkarnir þar sem mælist marktækur munur á stuðningi eftir kyni eru Vinstri græn og Miðflokkurinn. Vinstri græn njóta nú stuðnings rúmlega 13 prósent kvenna en einungis 5,5 prósent karla. Hjá Miðflokknum snýst dæmið við en flokkinn styðja 11,5 prósent karla en 5,4 prósent kvenna.

Ef horft er á stuðning við flokka eftir aldri kemur í ljós að hjá ríkisstjórnarflokkunum þremur mælist ekki marktækur munur milli mismunandi aldurshópa og nánast ekki hjá Viðreisn.

Samfylkingin mælist best í yngsta aldurshópnum en næstbest í þeim elsta. Píratar sækja stuðning sinn frekar til yngra fólks en eldra sem er öfugt við Miðflokkinn.