Samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup eykst fylgi Vinstri grænna um tvö prósentustig frá síðasta Þjóðarpúlsi en færri segjast styðja Miðflokkinn og minnkar fylgi hans um eitt prósent. Rúm fjórtán prósent segjast muni kjósa VG en rúmlega átta prósent Miðflokkinn.
Fylgi annarra flokkar er lítið breytt milli mánaða. Tæplega 24 prósent segjast muni kjósa Sjálfstæðisflokkinn, tólf prósent Pírata og Samfylkingu, rúmlega tíu prósent Framsókn, tæplega tíu prósent Viðreisn, um fimm prósent Sósíalistaflokk Íslands og tæp fimm prósent Flokk fólksins.
Ef gengið yrði til Alþingiskosninga í dag, sem fara fram í lok september, fengi Sjálfstæðisflokkurinn 17 þingmenn við kjördæmaúthlutun, VG níu, Píratar átta, Framsókn og Samfylking sjö og Viðreisn einum færri. Þá fengi Miðflokkurinn fimm þingmenn, Sósíalistaflokkur Íslands þrjá og Flokkur fólksins einn. Þó ber að taka tölunum með fyrirvara, þar sem tölur í hverju kjördæmi fyrir sig eru ekki jafn marktækar og heildarniðurstaða Þjóðarpúlsins vegna þess hve lítið úrtakið er í hverju kjördæmi fyrir sig.
Um tíu prósent þátttakenda tók ekki afstöðu eða vildi ekki gefa hana upp. Þá sögðust átta prósent ekki ætla að kjósa eða skila auðu.
Hartnær 61 prósent þeirra sem tóku þátt sögðust styðja ríkisstjórnina, mun fleiri en þeir sem segjast styðja einhvern þeirra flokka sem nú eru við stjórn. Þeir voru 48 prósent. Stuðningur við ríkisstjórnina jókst um 0,4 prósentustig milli mánaða.