Þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykktu í dag að afgreiða út úr þingflokknum fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. Þetta kemur fram á vef RÚV en samþykktin er þó með nokkrum fyrirvörum. Þetta er þriðja útgáfa Lilju af frumvarpinu en hún unnið að því að ná sátt um frumvarpið á milli ríkisstjórnarflokkanna.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í kvöldfréttum að loknum þingfundi Sjálfstæðisflokksins að þingflokkurinn hafi tekist að fá frumvarpinu breytt í nokkrum atriðum og þannig hafi breytt frumvarp verið samþykkt. Aðspurður um hvaða atriði það væru svaraði Bjarni:

„Það eru bara efnisatriði í frumvarpinu sem eiga eftir að koma fram en þau snúa að þessu fyrirkomulagi en sömuleiðis þá höfum við átt samtal við ráðherrann um að það verði hugað að auglýsingamarkaðnum sem er ein meginuppspretta tekna fyrir einkarekna miðla og höfum haft áhyggjur af því að ekkert á að gera varðandi umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Við teljum að það sé alveg útilokað annað en að skilja stærri sneið af auglýsingamarkaðnum eftir fyrir einkaaðila.“

Rætt var við Lilju Alfreðsdóttur og hún spurð hvort hún væri sátt við þá fyrirvara sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins setti.

„Mestu máli skiptir er að við erum að styðja við íslenskan fjölmiðlamarkað. Frumvarpið er að komast í þinglega meðferð þannig að ég get mælt fyrir því og það fer til nefndar og ég legg mikla áherslu á það að gildistakan er frá 1. janúar 2020.“

Aðspurð um hvort hún væri sátt við að það hefði gengið hægt að fá þingflokk Sjálfstæðisflokksins til að samþykkja frumvarpið svaraði hún:

„Mestu máli skiptir að við getum klárað málið eins og það stefnir allt í en ég hef alveg gaman að því að hafa fyrir hlutunum og það hefur verið í þessu tilfelli.“