Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn ekki ætla í ríkisstjórn nema með 25 prósent atkvæða í komandi Alþingiskosningum.

„Sjálfstæðisflokkurinn fer ekki í stjórn nema hann nái góðri kosningu. Hann verður að vera yfir 25 prósent. Annars eru menn að kjósa í aðra átt,“ segir Brynjar í kosningaþætti Hringbrautar sem verður sýndur í kvöld.

Í fyrstu kosningavaktinni mæta þau Brynjar Níelsson í Sjálfstæðisflokknum, Þórunn Sveinbjarnardóttir í Samfylkingunni og Björn Leví Gunnarsson í Pírötum til að ræða allt það helsta fyrir Alþingiskosningar.

Brynjar segir ekki hollt og gott fyrir lýðræði í landinu að hafa marga litla flokka í stjórn. „Það er mikilvægt fyrir stjórnmál í landinu að það sé öflugir flokkar en ekki tíu til tuttugu smáflokkar. Ég vil alvöru sterka flokka,“ sagði hann.

Aðspurður hvort Sjálfstæðisflokkurinn væri harður eða mildur hægri flokkur segir Brynjar að flokkurinn sé mjög mildur yfir höfuð.

Brynjar Níelsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Björn Leví Gunnars­son verða í kosningaþætti Hringbrautar í kvöld.
Fréttablaðið/Anton Brink