Alls hafa fjórir flokkar beðið um endurtalningu í Suðurkjördæmi. Það eru Sjálfstæðisflokkur, Píratar, Sósíalistaflokkur og VG.
„Já, það hafa fleiri flokkar en VG beðið um endurtalningu,“ segir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, í samtali við Fréttablaðið í morgun.
Hann segir að yfirkjörstjórn ætli að funda í dag og muni þá fara yfir það hvort að það verði talið aftur. Það verði ekki ljóst fyrr en eftir hádegi hvort að það verði gert.
Greint var frá því í gær að VG hefði krafist endurtalningar og í gærkvöldi tóku Píratar undir þá kröfu.
Lýðræðisleg regla
Álfheiður Eymarsdóttir, oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, sagði á samfélagsmiðlum í gærkvöldi að í ljósi niðurstaða væri það „ sjálfsögð lýðræðisleg regla að endurtelja og ganga úr skugga um að þessi litli munur sé réttur“ og vísaði þá til þess að aðeins munaði sjö atkvæðum á milli VG og Miðflokksins í kjördæminu.
„Þetta skiptir engu máli fyrir niðurstöður Pírata í kjördæminu. Við virðum lýðræðið og teljum VG í fullum lýðræðislegum rétti til að fá endurtalningu í ljósi stöðunnar. Við hefðum staðið með hvaða framboði sem er í sömu stöðum,“ segir Álfheiður í yfirlýsingunni.
Hún segir að auk þess telji Píratar „gæðatékk“ ekki samræmast kosningalögum og hvað þá „gæðatékk“ þar sem umboðsmenn eru ekki látnir vita eða eru ekki viðstaddir.
„Við höfum komið þessum athugasemdum á framfæri við yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis. Og beðið um skýringar á því hvernig atkvæða var gætt frá því talningu lauk í morgun. Lýðræði -ekkert kjaftæði!“ segir hún að lokum.