Sjálfstæðisflokkurinn er langvinsælastur meðal þeirra sem starfa á hinum almenna vinnumarkaði en 29 prósent þeirra ætla að kjósa hann. Þetta sýna niðurstöður skoðanakönnunar sem Prósent framkvæmdi fyrir Fréttablaðið.

Næstvinsælasti flokkur einkageirans er Framsóknarflokkurinn með þrettán prósent, og þeim næst Viðreisn með 12 prósenta fylgi. Á eftir henni koma Píratar með tíu prósent. Bæði Vinstri græn og Samfylking eru með níu prósenta fylgi hjá starfsfólki í einkageiranum.

Spurt var: Hvaða flokk myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag?
Prósent Rannsóknir.

Fylgið jafnara meðal kjósenda hjá hinu opinbera

Afstaða opinberra starfsmanna til stjórnmálaflokka er hins vegar mun dreifðari en afstaða starfsmanna í einkageiranum. Þannig segjast 18 prósent starfsmanna hins opinbera ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 17 prósent Samfylkinguna, 16 prósent Pírata og 16 prósent Vinstri græn. Ellefu prósent opinberra starfsmanna segjast ætla að kjósa Viðreisn og tíu prósent Framsóknarflokkinn.

Vinstri græn njóta hins vegar mests fylgis meðal þeirra sem starfa í þriðja geiranum, með örlítið forskot á Sjálfstæðisflokkinn. Vegna þess hve fáir svarenda könnunarinnar starfa í þriðja geiranum er óvarlegt að leggja mikið út af svörum þeirra.

Könnunin var send á könnunarhóp Prósents og svartími var frá 15. til 23. júlí. Í hópnum voru 2.600 einstaklingar á Íslandi, átján ára og eldri, og voru svör þeirra vegin eftir kyni, aldri og búsetu. Svarhlutfall var 52 prósent.