Sjálf­stæðis­flokkurinn er á­fram stærsti flokkur landsins, sam­kvæmt nýrri skoðana­könnun MMR sem birt var í morgun. Fylgi flokksins mælist nú 21,1% sem er rúmum þremur prósentu­stigum lægra en við síðustu Al­þingis­kosningar.

Fram­sóknar­flokkurinn sækir að Sjálf­stæðis­flokknum og er fylgi hans nú 17,9%, eða tæpu prósentu­stigi meira en við síðustu kosningar. Fylgi Vinstri grænna mældist nú 12,1%, hálfu prósentu­stigi minna en í kosningunum.

Könnunin var fram­kvæmd dagana 12. til 18. októ­ber og var heildar­fjöldi svar­enda 967 ein­staklingar, 18 ára og eldri.

Fylgi Pírata mældist nú 11,7%, þremur prósentu­stigum meira en í síðustu kosningum og fylgi Við­reisnar mældist nú 10,0%, tæpum tveimur prósentum hærra en í kosningunum. Samfylkingin er með 10,1% fylgi sem er 0,2 prósentustigum meira en í kosningunum.

Þá dalar Flokkur fólksins lítil­lega frá kosningum. Fylgi flokksins mældist nú 7,8% , rúmu prósentu­stigi minna en í kosningunum. Fylgi Mið­flokksins mældist nú 3,2%, rúm­lega tveimur prósentu­stigum minna en í síðustu kosningum. Miðað við þetta kæmi flokkurinn ekki að manni.

Sósíal­ista­flokkurinn kom ekki manni að í síðustu kosningum en kæmi manni að ef kosið yrði í dag, miðað við niður­stöður könnunar MMR. Fylgi flokksins er nú 5,5% en var 4,1% í kosningunum í septem­ber.

Stuðningur við ríkis­stjórnina mældist nú 57,5%, tæpum sex prósentu­stigum hærra en í síðustu könnun fyrir kosningar þar sem stuðningur mældist 51,6%.