Nýr þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundar nú í þinghúsinu, gert er ráð fyrir að fundinum ljúki fyrir hádegi. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 16 þingmenn í kosningunum á laugardag sem er sami fjöldi og í síðustu kosningum.



Framsókn fundar klukkan 16
Þingflokkur Framsóknarflokksins fundar klukkan fjögur. Flokkurinn bætti við sig fimm þingmönnum og eru núna þrettán alls.

Fundur þingflokks Framsóknarflokksins verður í herbergi forsætisnefndar þar sem þingflokksherbergi flokksins rúmar ekki nýjan fjölda þingmanna. Vera kann að þingflokkur Vinstri grænna þurfi að skipta við Framsókn um dvalarstað í þinghúsinu og Framsókn endurheimti græna herbergið svokallaða.
„Við erum að hittast og fá nýja þingmenn inn og fara yfir stöðuna. Svo þurfum við að heyra í okkar foringja og heyra hvernig fundur þeirra þriggja fer og hvað kemur upp úr honum,“ segir Willum Þór Þórsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sem mættur var i þinghúsið upp úr klukkan ellefu til að undirbúa fundinn þingflokksins.
Einn þingmaður flokksins, Halla Signý Kristjánsdóttir, komst ekki á fundinn vegna veðurs og því var verið að finna fjarfundarbúnað svo að þingflokkurinn gæti allur verið saman.

VG fundaði í gær
Þingflokkur Vinstri grænna fundaði klukkan fjögur í gær og ekki er gert ráð fyrir öðrum fundi hjá þeim í dag.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins munu formenn stjórnarflokkana hittast á fundi í dag, en ólíklegt er að stjórnarmyndunarviðræður fari á fullt fyrr en óvissuþáttum um endanlegar niðurstöður kosninga liggja fyrir.