Flestir treysta Sjálf­stæðis­flokknum best til að sinna fjár­málum Reykja­víkur­borgar, sam­kvæmt niður­stöðum nýrrar könnunar Maskínu.

Alls sögðust 27,7% þeirra sem tóku af­stöðu treysta Sjálf­stæðis­flokknum best til að fara með þennan mála­flokk en 25,5% nefndu Sam­fylkinguna. Þar á eftir komu Píratar (13,6%), Við­reisn (9,6%), Fram­sóknar­flokkurinn (7,2%) og Sósíal­ista­flokkurinn (5,8%). Undir fimm prósent nefndu Flokk fólksins, Vinstri­hreyfinguna – grænt fram­boð og Mið­flokkinn.

Dæmið snýst við þegar kemur að sam­göngu­málum en þar treysta flestir Sam­fylkingunni best til að fara með mála­flokkinn í borginni. 28,9% nefndu Sam­fylkinguna, 24,2% nefndu Sjálf­stæðis­flokkinn og 12,5% nefndu Pírata. Þar á eftir komu Fram­sóknar­flokkurinn (9,2%), Við­reisn (8,7%) og Flokkur fólksins (5,0%).

Flestir treysta Vinstri grænum best til að sinna um­hverfis­málum borgarinnar. 19,1% nefndu flokkinn, 18,9% nefndu Pírata, 18,3% Sam­fylkinguna og 15,0% nefndu Sjálf­stæðis­flokkinn. Þar á eftir komu Fram­sóknar­flokkurinn, Við­reisn og Sósíal­ista­flokkurinn.

Könnunin var lögð fyrir Þjóð­gátt Maskínu, þjóð­hópi fólks sem dreginn er með til­viljun úr Þjóð­skrá. Svar­endur voru 18 ára og eldri og með bú­setu í Reykja­vík. Könnunin fór fram dagana 6. til 11. maí 2022 og voru svar­endur 1.012 talsins.