Ingunn Lára Kristjánsdóttir
ingunnlara@frettabladid.is
Sunnudagur 8. desember 2019
09.07 GMT

Sjálfstæðir sviðslistamenn eru skapandi einstaklingar sem gefa sál sína til að gæða samfélagið lífi og lit en starfi þeirra fylgir mikil óvissa, þá sérstaklega varðandi fjárhagsstöðu vegna skorts á styrkjum og sjóðum. Með þeirri óvissu enda sumir í gjaldþroti, missa tengsl við ástvini og einangrast.

Allir listamennirnir sem Fréttablaðið ræddi við hafa þurft að fjármagna verkefni úr eigin vasa eða þurft að hoppa í mörg hlutverk og störf til þess að setja upp sýningu. Allir hafa þeir verið beðnir um að vinna frítt þrátt fyrir háskólamenntun og reynslu.

Flestir töldu sig vera heppna að fá borgað fyrir vinnu sína.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekki hækkað framlag til sjálfstæðra sviðslistahópa í þrjú ár þrátt fyrir árlega hækkun til listastofnana. Sjálfstæðir sviðslistamenn framleiða rúmlega 70 prósent af öllum nýjum sviðsverkum á landinu og raka inn álíka mörgum verðlaunum og stærstu leikhús landsins.

„Maður veit aldrei hvort maður á fyrir salti í grautinn hver mánaðamót,“ segir Harpa Fönn tónskáld.
Fréttablaðið/ Anton Brink

Engin orka, enginn tími, enginn peningur

Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, tónskáld og stofnandi sjálfstæða leikhópsins Lakehouse, var tilnefnd til Grímuverðlaunanna fyrir tónlistina sem hún samdi fyrir verkið Í samhengi við stjörnurnar eftir Nick Payne, en það var fjármagnað nánast að öllu leyti úr vasa leikhópsins.

„Það sem fólk verður að skilja er að svona verk eru búin að liggja í maganum á manni í mörg ár og vinnan snýst ekki einungis um framleiðsluna sjálfa,“ segir Harpa Fönn og segir óvissuna við úthlutun styrkja gera listamönnum erfitt fyrir.

„Til þess að geta verið skapandi einstaklingur, þá þarf maður að vera svolítið hömlulaus. Það er gríðarlega erfitt þegar maður þarf að vera háður einum styrk sem er auglýstur einu sinni á ári. Maður veit aldrei hvort maður á fyrir salti í grautinn hver mánaðamót,“ segir Harpa Fönn en öll leikfélög þurfa að sækja um styrk í sama sjóðinn ásamt óperu- og dansfélögum.

„Ég held að langflestir listamenn vinni heilmikið frítt.“

Pálína Jónsdóttir leikstjóri, sem er nýflutt til Íslands eftir að hafa unnið sjálfstætt í Bandaríkjunum, bendir á að óperu- og danssenan sé sístækkandi hér heima. Algjör sprenging hafi orðið í óperu- og dansverkefnum, sem sækja í síauknum mæli um styrki úr sviðslistasjóðnum ásamt öðrum leikfélögum. Framlag menntamálaráðuneytis er fáránlega lágt í samanburði við þessa sprengingu að mati Pálínu.

„Þetta er ótrúlega lítil fjárupphæð þegar hún er sett í samhengi. Sjálfstæða leiklistarsenan er svo dreifð að fólk áttar sig ekki á rúmtaki hennar og framlagi til listgreinarinnar,“ segir Pálína.

Harpa Fönn fékk tilnefningu til Grímuverðlaunanna fyrir tónlistina sem hún samdi fyrir Í samhengi við stjörnurnar.
Mynd/Lakehouse

Talsvert fleiri sækja um styrki en fá úthlutað. Árið 2014 bárust Rannís umsóknir um styrki til atvinnuleikhópa frá 86 aðilum vegna 105 verkefna, þar af bárust tvær umsóknir um samstarfssamning. Úthlutað var 65,63 milljónum króna til 13 verkefna og fengu sviðslistahópar úthlutaða 190 mánuði af listamannalaunum.

Natan Jónsson, leikstjóri og handritshöfundur, var einn af þeim sem voru ekki heppnir það ár. Hann var þá að setja upp sitt fyrsta leikverk eftir útskrift, Samfarir Hamfarir.

Þrátt fyrir að hafa ekki fengið styrk lét hann það ekki stoppa sig. Eins og í tilfelli Hörpu Fannar var Natan búin að ganga lengi með verkið í maganum en honum var boðið að vinna verkið áfram í vinnusmiðju hjá Tjarnarbíói.

„Þetta var tveggja ára þróunarferli. Maður var að hlaupa í öll verkefni og ég gat því ekkert unnið með þessu,“ segir Natan.

Það virðist vera staðan hjá flestum leikfélögum að sjaldan er til peningur til að borga full laun. Þeir listamenn sem eru svo „heppnir“ að fá listamannalaun fá ekki einu sinni greitt samkvæmt lágmarkstaxta atvinnuleikhúsanna vegna þess að menntamálaráðuneytið tekur ekki mið af vísitöluhækkunum. Í lok ferlisins eru vinir og fjölskyldumeðlimir að hoppa inn í hlutverk til að hjálpa leikhópnum á lokaskrefunum fyrir frumsýningu.

Undantekning að listamenn fái almennileg laun

Jafnvel stærstu leikhóparnir og leikhúsin eru fjársvelt og það virðist vera undantekningin en ekki reglan að geta borgað listamönnum mannsæmandi laun.

Sem dæmi má nefna Leikhópinn Lottu sem flest fjölskyldufólk ætti að kannast við. Hópurinn hefur verið starfandi í 13 ár og fær að meðaltali 20 þúsund áhorfendur á sýningar sínar hvert sumar. Þrátt fyrir það hafa þau aldrei getað greitt listamönnum sínum laun samkvæmt taxta. Mun meira en þriðjungur er sjálfboðavinna og þá sérstaklega hjá listrænum stjórnendum. Leikarar ná yfirleitt að toga upp launin með aukavinnu.


„Það finnst engum eðlilegt að hringja í iðnaðarmann og biðja hann um að vinna frítt fyrir sig, hvað þá fyrir eitthvert fyrirtæki. Takk, en nei takk, ég fór ekki í þriggja ára háskólanám til að vinna fyrir samlokur.“


Einnig má nefna Gaflaraleikhúsið, sem hefur unnið gríðarlega mikilvægt starf fyrir menningarlíf Hafnarfjarðar. Leikhúsið hefur verið starfandi í 10 ár og hefur enn ekki náð þeim áfanga að greiða starfsmönnum og listamönnum almennileg laun að sögn Lárusar Vilhjálmssonar, leikhússtjóra Gaflaraleikhússins.

„Styrkir frá bæ og ríki eru langt undir því sem rekstur á leikhúsi og uppsetning á verkum kostar. Eitt verk á ári er hámark þess sem við getum sett upp,“ segir Lárus.

Atvinnuleikhús Vestfjarða, Kómedíuleikhúsið, hefur sett á svið 46 leikverk og sýnir árlega um 100 sýningar um allt land. Kómedíuleikhúsið hefur einu sinni fengið styrk frá Leiklistarráði þrátt fyrir að hafa starfað vestra síðan um aldamót.

„Ég held að langflestir listamenn vinni heilmikið frítt. Þó að ég taki ekki að mér ógreidda vinnu og ég sendi reikning fyrir hverju verkefni, þá kallar vinnan mín svo oft á mikið fleiri vinnustundir en ég get rukkað fyrir,“ segir Ástbjörg Rut Jónsdóttir, sviðslistakona og táknmálstúlkur.

Leikhópurinn Lotta hefur verið starfandi í 13 ár og fær að meðaltali 20 þúsund áhorfendur á sýningar sínar hvert sumar. Þau geta samt ekki greitt laun samkvæmt taxta.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Endalaust púsluspil

Harpa Fönn hjá Lakehouse segir að æfingaferlið geti verið sérstaklega erfitt vegna skorts á fjármagni.

„Við vorum að æfa Í samhengi við stjörnurnar og leikararnir voru atvinnuleikarar í öðrum störfum. Þá var mikið púsluspil að finna tíma og stað til að æfa. Við reyndum að nýta allan tíma fyrir og eftir vinnu og nýta öll rými sem við gátum fengið. Þegar það er svona lítið af fjármunum þá bitnar það auðvitað á sýningunni.“

Erfitt getur reynst fyrir sjálfstæða leikhópa að fá áhorfendur til að mæta á sýningar, sérstaklega í samkeppni við Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið, sem hafa talsvert meira á milli handanna fjárhagslega til að verja í markaðssetningu og auglýsingar.

Harpa Fönn bendir á að eftir svo langan vinnudag sé hvorki orka né tími til að gera neitt annað, hvað þá að auglýsa sýninguna.

Natan greiddi mikið úr eigin vasa til að fjármagna verkið Samfarir Hamfarir og varð í kjölfarið gjaldþrota. Reikningarnir enduðu allir í innheimtu og skuldin tvöfaldaðist. Til að bæta gráu ofan á svart gekk Natan í gegnum skilnað þegar hann var að vinna við að setja upp leikritið.

„Það var högg á sálarlífið en við erum góðir vinir í dag. Ég var í svo mikilli skuld að það reyndist erfitt að vera í sambandi. Ég var alltaf að vinna og var stöðugt að huga að næsta verkefni. Þá hafði ég engan tíma fyrir hinn aðilann í lífi mínu.“

Natan Jónsson handritshöfundur og leikstjóri ásamt dóttur sinni Ronju Salvöru.
Fréttablaðið / Sigtryggur Ari

Gleymir að borða og sofa

Pálína Jónsdóttir er annar leikstjóri sem Fréttablaðið ræddi við sem ver öllum sínum tíma í verkin sín. Pálína vinnur að því að setja á laggirnar nýtt alþjóðlegt leikfélag sem heitir Reykjavík Ensemble International Theatre Company og leitar nú leiða til að fjármagna fyrsta leikárið.

„Grettistakið við að búa til nýtt leiklistarkompaní fer ríflega yfir tvöfaldan vinnudag. Mig vantar umsjónarmanneskju til að banka í mig og segja mér að nú sé kominn matur eða að nú þurfi ég að fara að sofa.”

Pálína útskrifaðist árið 2017 með meistaragráðu í leikstjórn frá hinum virta Columbia háskóla í New York og vann fyrsta árið eftir útskrift í Bandaríkjunum, þá aðallega í New York, Kaliforníu og Norður-Karólínu.

Hún segir listastofnanirnar ekki gera nóg til að endurspegla fjölþjóðlegt samfélag á Íslandi. Erlendir listamenn og listamenn sem læra erlendis eigi takmarkaðan séns á að koma sér á framfæri í íslenskri listasenu.

„Hér erum við með nýtt Ísland en leiklistarsenan hefur ekki verið að taka á móti þessa nýja fólki og heldur ekki á móti Íslendingum sem fara utan í nám og hafa svo enga möguleika á að koma sér á framfæri hér,“ segir Pálína Jónsdóttir leikstjóri.
Fréttablaðið/ Sigtryggur Ari

Listamaðurinn í lausu lofti

„Ég varð þess áskynja að það væri ekki um auðugan garð að gresja varðandi það að fá fastráðningu í vinnu sem leikstjóri á Íslandi. Stofnanirnar bjóða ekki upp á það lengur, nú er þetta gigg-iðngrein. Þessar stofnanir sem eru á risa fjárframlögum virðast ekki verið að búa til fastráðningar fyrir leikstjóra. Þeim ber að hlúa að listgreininni og uppfæra hana með því að laða til sín menntað hæfileikafólk. Fólk sem er með sérmenntun inn í þessar listgreinar hlýtur að vera ávinningur fyrir áframhaldandi uppbyggingu og endurnýjun á okkar leikhússenu og samfélagi,“ segir Pálína.

Þrátt fyrir fjárframlögin frá ríkinu og Reykjavíkurborg ná leikhúsin og Íslenska óperan ekki að tryggja það að listamenn með sérmenntun fái meira aðgengi að því að starfa við sínar listgreinar og nýta sína sérþekkingu. Að minnsta kosti ekki að mati sjálfstæðra sviðslistamanna. Búið er að ýta listamönnum nánast alfarið út í gigg-iðnað.

„Listamaðurinn er í lausu lofti það sem eftir lifir listaársins. Ég kenni meðfram því að leikstýra og geri eigin verkefni en það er meiriháttar átak, tekur langan tíma og fjárhagslegt framlag er úr mínum eigin vasa. Ég þarf að reiða mig á samstarfsvilja þeirra sem bera sömu sköpunarþrá með sér og vilja taka þátt í því að búa til leiklist.“

Leiklistin miklu meira en hefðbundið staðartungumál

Ástbjörg Rut Jónsdóttir er dæmi um sérmenntaðan sjálfstæðan listamann sem hefur unnið að því að gera sviðslistir aðgengilegri fyrir fleiri. Eins og Pálína er hún í öðru starfi samhliða listinni.

Ástbjörg sérhæfir sig í táknmálstúlkun listviðburða. Hún vinnur hálft árið sem leiðsögumaður og restina af árinu við sviðslistir, meðal annars sem leikstjóri og við það að auðvelda heyrnarlausum aðgengi að svislistum.

Ástbjörg segir að laun hennar fyrir störf í táknmálstúlkun leikhúss séu að mestu leyti háð styrkjum. Hingað til hafi reynst erfitt að fá leikhúsin til að borga fyrir aðgengi heyrnarlausra að leikhúsunum, þó áhugi sé gjarnan til staðar á að setja á svið leikverk með leikhústúlkunum.

Gjarnan er velt upp spurningum um kostnað og áhorfendafjölda. Málið ætti þó ekki að snúast um fjárhagslegan ábata heldur annars konar gróða sem ekki hlýst af peningum; að gera listir aðgengilegri..

Borgarleikhúsið greindi frá því í nóvember að boðið yrði upp á textaðar leiksýningar.

„Þetta er frábært framtak hjá Borgarleikhúsinu og nýtist sjálfsagt mörgum, en textun nýtist ekki endilega öllum heyrnarlausum þar sem íslenskt táknmál er þeirra móðurmál en ekki íslenska,“ bendir Ástbjörg á.

Pálína tekur í svipaðan streng og segir tóm milli þess veruleika sem þjóðfélagið hefur farið í gegnum og þess sem hún sér í leiklistarsenunni.

„Við erum alltaf að státa okkur af því að vera fjölþjóðlegt samfélag en það er veruleikagjá milli þess og senunnar, sem fylgir enn einhverjum gömlum lögmálum, sem segja má að skapist að einhverju leyti af því að hefðbundin leiklist notar staðartungumál. Leiklistin er bara svo miklu meira en það,“ segir Pálína.

Táknmálstúlkur þarf að skilja textann alveg jafn vel og leikstjórinn til þess að geta túlkað hann með öllu orðagríni, kaldhæðni og tilfinningum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hvað þarf að breytast?

Natan segir þörf á stærri styrktarpotti fyrir listamenn, sérstaklega nú þegar mikil gróska er í leiklistariðnaðinum.

„Það vantar fjármagn fyrir aðila sem eru að stíga sín fyrstu skref. Sérstaklega fyrir unga listamenn sem eru að skrifa ný íslensk leikverk og eru að reyna að bæta við menninguna hér heima fyrir.“

Pálína segir kraftmikið leiklistarsamfélag í New York, þar sem styrktarsjóðir eru fjölmargir, bæði á vegum hins opinbera og einkaaðila. Listin hefur lengi verið studd af einkaaðilum í Bandaríkjunum og þegar fólk styður við listastarfsemi fær það skattaafslátt. Þetta er rótgróið fyrirkomulag í Bandaríkjunum en þekkist ekki á Íslandi.

„Ég held að fyrirtæki myndu sjá sér meiri hag og hvata í að styðja raunverulega við þetta framtak, að búa til list og menningu, ef þeir sjá einhvern fjárhagslegan ábata í því,“ segir Pálína.

Sjálfstæðir sviðslistamenn framleiða rúmlega 70 prósent af öllum nýjum sviðsverkum á landinu og raka inn álíka mörgum verðlaunum og stærstu leikhús landsins.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Ástbjörg segir of algengt að listamenn séu beðnir um að vinna fyrir lítið sem ekkert.

„Mér var einu sinni boðið að leika aðalhlutverk í auglýsingu fyrir 10 þúsund krónur og samlokur. Ég veit að ég er ekki ein um að hafa spurst fyrir um greiðslu og fengið svör á við: „Það er reyndar ekki borgað, en þetta verður ótrúlega skemmtilegt og það verða samlokur á staðnum,“ segir Ástbjörg og skellir upp úr.

„Það finnst engum eðlilegt að hringja í iðnaðarmann og biðja hann um að vinna frítt fyrir sig, hvað þá fyrir eitthvert fyrirtæki. Takk, en nei takk, ég fór ekki í þriggja ára háskólanám til að vinna fyrir samlokur.“

Nágrannar okkar á hinum Norðurlöndunum hafa síðustu ár verið að þróa aðferð við að styðja við sviðslistafólk sem starfar sjálfstætt á milli verkefna. Slík aðferðafræði viðurkennir sérstöðu listafólks og gæti skipt sköpum væri hún innleidd hér á landi.

Pálína bætir við: „Fólk er að mennta sig hér heima og fer mikið utan í framhaldsmenntun. Það kemur svo heim og grípur í tómt. Það er enginn jarðvegur til að taka á móti þessu fólki og það er óásættanlegt. Af hverju erum við með þennan lánasjóð, sem á að styðja við menntun, ef þessi menntun skilar sér svo ekki heim?“

Athugasemdir