Mannskepnan hefur alltaf haft skoðanir á útliti sínu í tímans rás. „Sjálfur“ hafa verið teknar í gegnum aldirnar nema í öðruvísi formi. Kóngafólk, gyðjur, hetjur og hátt sett fólk í pólitík hefur verið fært í höggmyndir og styttur. Það sem hefur breyst er aðgengi að efni og aðgengi að speglinum og einnig vitundin um það hvað öðru fólki finnst.

Sjálfsmynd okkar snýr að hugmyndum og því hvað við vitum um okkur. Hvers kyns við erum, hvort við séum klár, fyndin eða sniðug, hvaða íþróttum við erum góð í og þar fram eftir götunum. Sjálfsálit er svo hvað okkur finnst um þessar staðreyndir. Þarna greinir fræðimenn stundum á og einhverjir sem telja sjálfsmynd og sjálfsálit vera sama hlutinn. Þriðja útfærslan snýr svo að líkamsmynd sem er sú skoðun eða hugmynd sem einstaklingur hefur um útlit sitt.

„Ímyndum okkur sjálfsmynd sem stóran hring með fullt af atriðum inní með orðum á. Þar getur atriðið verið góð/ur í lestri, annað getur verið löt/latur, enn annað hvatvís og fleira. Inni í því er einnig það sem okkur finnst um útlit okkar. Hjá sumum tekur það lítið pláss en hjá öðrum tekur það mikið pláss,“ segir Elva Björk Ágústsdóttir, kennari og námsráðgjafi. Elva Björk heldur úti síðunni sjalfsmynd.is, hefur gefið út sjálfsstyrkingarprógramm og er í samtökum um líkamsvirðingu.

„Við sjáum krakka sem hafa jákvæða sýn á útlit sitt en það er hins vegar ekki aðalatriðið hjá þeim. Svo sjáum við krakka sem hafa frekar neikvæða sýn á útlit sitt en eru hins vegar ekkert sérstaklega mikið að velta sér upp úr því heldur einblína á aðra eiginleika. En svo er það hópurinn þar sem útlitið vegur mjög þungt í líðan þeirra og hann skiptist í tvennt. Annars vegar eru það krakkar sem finnst þau líta ágætlega út og hins vegar þau sem líður ekki vel með eigin líkama og útlit,“ segir Elva Björk. „Mikilvægt er að huga að báðum hópum.“

Speglum okkur í öðrum

Elva Björk hefur rýnt í það hversu snemma þessi sjálfsmeðvitund barna verður til. Rannsóknir sýna að sjálfsmynd barna mótast snemma og mótast hún eftir reynslu barna, hverju þau lenda í, samskiptum við önnur börn og fólk og viðbrögðin sem þau fá í samskiptum, svo eitthvað sé nefnt.

„Við speglum okkur í öðru fólki. Við vitum að við erum klár og fyndin með því að rýna í viðbrögð annarra. Ef ég byggi í helli og ætti ekki í samskiptum við fólk þá myndi ég ekki vita hvort ég væri klárari en næsti maður sem byggi í helli mörgum kílómetrum frá mér. Við vitum hvernig við erum með því að fá viðbrögð annarra og við berum okkur saman við aðra snemma á ævinni,“ segir Elva Björk.

Elva Björk segir það innbyggt í mannskepnuna að verja sjálfsmynd sína. „Við erum með ýmsa hugræna tækni sem fer í gang til að verja okkur. Það er innbyggt í okkur að vera meðtekin af hópnum sem hjálpaði okkur að lifa af þegar við vorum hellisbúar. Við viljum vera meðtekin og samþykkt af hópnum og viljum að hópurinn verndi okkur. Við viljum ekki að okkur sé hafnað. Það er því skiljanlegt og í raun lífsnauðsynlegt að við spáum svolítið í samþykki annarra en við gerum það auðvitað mismikið.“

Rannsóknir um sjálfsmynd og líkamsmynd ungra barna á Íslandi eru af skornum skammti. En margir hafa rýnt í þau atriði sem geta haft áhrif á sjálfsmynd barna. Erlendar rannsóknir á áhrifum tónlistarmyndbanda á líkamsmynd og líðan barna og unglinga sýna að unglingsstúlkur upplifa verri líkamsmynd og meiri óánægju með líkamsvöxt eftir að hafa horft á tónlistarmyndbönd með grönnum söngkonum eða leikkonum. Stúlkur allt niður í fimm ára finna fyrir meiri óánægju með eigið útlit og löngun til að fara í megrun eftir að hafa horft á tónlistarmyndbönd og skoðað tískublöð.

Einnig hefur verið gerð rannsókn á áhrifum þess að leika sér með Barbí og þau áhrif borin saman við áhrif þess að leika sér með dúkku í „eðlilegri“ holdum. Stúlkurnar sem léku sér með Barbí upplifðu óánægju með eigin líkamsvöxt og löngun í grennri vöxt á meðan stúlkur sem léku sér með Emmu, barbídúkku sem er eðlilega vaxin, fundu ekki fyrir þessum áhrifum.

Kynjamunur tekur við

„Litlum börnum finnst þau bara nokkuð flott almennt. Þeim er hrósað fyrir allt sem þau gera. Þegar þau byrja að skríða, standa og svo ganga. Einnig þegar eitthvað nýtt bætist við hjá þeim, þá er þeim hrósað mikið. Við sjáum svo hnignum á sjálfsmyndinni þegar kynþroskaskeiðið tekur við. Það er meiri dýfa hjá stúlkum en drengjum og þá byrjar kynjamunurinn að myndast sem helst yfirleitt út lífið,“ segir Elva Björk.


„Stúlkur eru almennt með verri sjálfsmynd og minna sjálfstraust en drengir út lífið. Það hefur verið rakið til þess að líkamsmynd þeirra verður ólík við kynþroskaaldur.“

Tíðni slæmrar líkamsmyndar sem hefur áhrif á sjálfsmyndina hefur færst neðar í aldri og segir Elva Björk nokkrar ástæður fyrir því. Kynþroski hefur færst neðar í aldri og við erum að þroskast örlítið fyrr sem þýðir að útlitsbreytingar byrja fyrr. Við kynþroskaaldur færast margar stúlkur fjær þeirri staðalímynd sem er ríkjandi, fá mjaðmir og bæta á sig. Á meðan stækka drengir og breikka og færast þá nær sínum staðalímyndum.

Þótt flestar rannsóknir bendi til þess að stúlkur hafi neikvæðari líkamsmynd en drengir þá eru drengir ekki undanskildir áhyggjum af útliti og líkamsvexti.

„Óánægja með útlit hefur aukist mikið á undanförnum áratugunum. Nýlegar rannsóknir benda þó til þess að líkamsmynd unglinga fari hægt og bítandi batnandi, og sést sú breyting aðallega hjá stúlkum en ekki drengjum. Óánægjan með útlit og líkama er ekki af sama toga hjá stúlkum og drengjum. Til að mynda vill mikill meirihluti kvenna léttast meðan stórt hlutfall karlmanna vill þyngjast,“ segir Elva Björk.

Mun fleiri drengir hafa áhyggjur af hæð sinni en stúlkur og hafa drengir almennt meiri áhyggjur af því að vera of grannir á meðan stúlkur hafa meiri áhyggjur af því að verða feitar. Rannsóknir sýna að drengir, sem finnst þeir vera of grannir, eru með verri líkamsmynd en aðrir drengir, einnig eru drengir sem taka út kynþroskann snemma með betri líkamsmynd en aðrir.

„Þarna erum við að tala um börn á unglingsaldri en ef við skoðum umhverfi yngri barna þá eru þau að fá alls konar skilaboð þrátt fyrir að vera ekki komin á samfélagsmiðla. Mér hefur lengi þótt áhugavert að skoða teiknimyndir og hvaða skilaboð við gefum börnum í gegnum þær. Þar leynast oft mörg skilaboð sem mörgum finnst kannski ómerkileg en geta verið frekar dulin. Það er merkilegt að pæla aðeins í því,“ segir Elva Björk.

Dulin skilaboð leynast víða

Teiknimyndir og leikföng barna gefa börnum skýr skilaboð mjög snemma. Söguhetjur í teiknimyndum falla iðulega að hugmyndinni um hið fullkomna útlit. Þar er karlkyns hetjan sterk og stór og jafnvel með „sixpack“. Kvenkyns hetjan er oft með sítt og fallegt hár og jafnvel svo mittisgrönn að hún gæti mögulega ekki staðið upprétt væri hún færð yfir í raunveruleikann.

Elva Björk nefnir önnur dulin skilaboð og þau sem eru óljós. Hvernig lítur vondi kallinn út í teiknimyndum? Eða barninu sem er strítt og fær ekki að vera með?

„Þetta eru rosalega skýr skilaboð og þó að við vitum að börn séu ekkert öll meðvitað að spá í þetta þá eru þetta skilaboð sem síast inn,“ segir Elva Björk og tekur dæmi. „Eins og t.d. þegar Klói kókómjólk varð allt í einu rosalega massaður. Pony-hestarnir sem ég lék mér með áttatíu og eitthvað voru litlir og þykkir. Núna eru pony-hestarnir orðnir mjög grannir og hávaxnir og margir hverjir farðaðir. Bardagakallarnir sem drengirnir leika sér með hafa svo sannarlega breyst og er búið að auka vöðvamassann hjá þeim og stækka töluvert. Barbí hefur líka verið mikið í umræðunni undanfarin ár þar sem að hún er óeðlilega grönn.“

Mikilvægasta verkfæri foreldra segir Elva Björk að sé það að minnka vægi útlitsins. Hrósa börnum sínum frekar fyrir að vera klár, sniðug, fyndin eða dugleg að lesa og læra í stað þess að hrósa fyrir fallegan fatnað eða fínt hár.

„Auðvitað finnst okkur börnin okkar fallegustu börn í heimi en ef við erum alltaf að hampa útliti þeirra þá upphefjum við þann eiginleika umfram aðra. Sterkasta verkfæri foreldra gegn þessu öllu er einmitt að draga úr áherslunni á útlit og einblína á aðra eiginleika þeirra,“ segir Elva Björk. „Við foreldrar getum verið góðar fyrirmyndir fyrir börnin okkar og minnkað áhersluna á eigið útlit, að minnsta kosti fyrir framan þau því þau sjá þetta svo sterkt hjá okkur. Ef börn eru alin upp við það að leggja ekki svona mikla áherslu á útlitið heima við eru þau betur varin þegar þau fara í skóla og þegar skilaboð samfélagsins verða meira áberandi, t.d. í gegnum samfélagsmiðla.“