Meirihluti nýrra bíla sem seldir eru í dag eru sjálfskiptir og þá sérstaklega í vinsælustu flokkunum. Meira að segja smábílar eru oftar en ekki búnir sjálfskiptingu þótt margir þeirra sé einnig fáanlegir beinskiptir. Svo eru það aðrir bílar sem eru ekki einu sinni fáanlegir beinskiptir nema með sérpöntun. Hyundai Tucson er hægt að fá sem bensínbíl, dísilbíl, tvinnbíl eða tengiltvinnbíl en umboðið tekur bílinn aðeins inn sjálfskiptan. Svo eru auðvitað allir tengiltvinnbílar og rafmagnsbílar sjálfskiptir og engar líkur á að það breytist mikið á næstunni. Torfi hefur einmitt kennt á Nissan Leaf rafmagnsbíl síðan að breytingin átti sér stað og ætlar nú að kaupa raf bíl númer tvö á heimilið. Að sögn Torfa Karls gengur vel að kenna eingöngu á sjálfskiptan og nóg af nemendum sem eru að biðja um það til að hann geti kennt á það eingöngu. „Ég var með stúlku í kennslu um daginn sem var mikið að velta þessu fyrir sér þar sem að vinkona hennar er að læra á sjálfskiptan. Hún spurði foreldra og fleiri í kringum sig og allir sögðu henni að taka beinskiptan því að þá mætti hún keyra bæði. Hún velti þessu fyrir sér vel og lengi og tók síðan sjálf ákvörðun og vildi taka sjálfskiptan. Þegar ég spurði af hverju hún hefði valið það sjálf sagði hún einfaldlega að sjálfskiptir bílar væru einfaldlega framtíðin og beinskiptir fortíðin og hún ætlaði að tilheyra framtíðinni,“ sagði Torfi og brosti.

Georg Georgsson, prófdómari hjá Frumherja.

Einfalt mál er að bæta beinskiptingunni við þegar búið er að taka próf á sjálfskiptan og í raun og veru lítill aukakostnaður við það ef einhver, þar sem einfaldara er að kenna á sjálfskiptan bíl. „Þetta er allt saman einfaldara í byrjun og fókusinn er meiri á umferðinni. Brosið kemur hins vegar mun fyrr á andlitið þegar þau eru að læra á sjálfskiptan, venjulega í fyrsta tíma“ segir Torfi. Georg Georgsson prófdómari er því líka sammála að sjálfskiptingin sé til að einfalda hlutina. „Það er bara allt annar handleggur að prófa nemanda á sjálfskiptan bíl. Þá er ekkert fálm eða fum lengur og próftakinn miklu rólegri. Mín vegna mætti hafa öll próf þannig og leyfa fólki að læra sjálft á beinskiptan, sem það getur þá gert hjá ökukennara ef það kýs svo“ sagði Georg að lokum.