Umboðsmaður Alþingis ítrekar við stjórnvöld að virða sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks þegar teknar eru ákvarðnir sem hafa áhrif á hagsmuni þess og daglegt líf. Réttargæslumaður fatlaðs fólks leitaði til umboðsmanns fyrir hönd manns sem taldi sig ekki hafa óskað eftir dvöl á hjúkrunarheimili. Kvartað var undan starfsháttum fjölskyldusviðs sveitarfélags og umsóknum þess um færni- og heilsumat fyrir einstaklinginn, og dregið í efa að hann hefði óskað eftir dvöl á hjúkrunarheimili.

Að mati umboðsmanns var meðferð málsins hjá sveitarfélaginu ekki í samræmi við lög. Sveitarfélaginu hefði borið að tryggja að upplýst væri hvað lægi að baki umsókn viðkomandi um hjúkrunarheimili, en engin gögn lægju fyrir um samskipti hans við sveitarfélagið eða frekari gögn sem vörpuðu ljósi á hvenær hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að dvöl á hjúkrunarheimili væri æskileg.

Tók umboðsmaður fram að dvöl á hjúkrunarheimili geti haft miklar breytingar í för með sér fyrir fólk til langframa og vísaði til þeirrar áherslu sem lögð væri á sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks í lögum og alþjóðasamningum. Nauðsynlegt sé að fyrir liggi með skýrum hætti hvort viðkomandi hafi óskað eftir slíkri ráðstöfun og hvaða upplýsingar hann hafi fengið og þar með samþykkt.

Á vef Umboðsmanns Alþingis segir að hann hafi vakið athygli heilbrigðisráðherra á álitinu og að athugað verði hvort gera þurfi lagabreytingar til að „tryggja betur sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks í lögum og stuðla að því að þeir sem sækja um dvöl á hjúkrunarheimili fái fullnægjandi fræðslu um áhrif þess á réttarstöðu sína og daglegt líf.“