„Það er gríðarleg tilhlökkun. Mikil eftirvænting og maður hefur auðvitað verið með í maganum síðustu daga og vikur yfir veðrinu því þetta sumar er búið að vera nánast eins og Skálmöld söng í gamla daga, myrkur, kuldi, ís og snjór,“ segir Hilmar Gunnarsson, verkefnastjóri Jökulsárhlaupsins, sem hófst í dag í 19. sinn.

Hlaupinu hefur verið aflýst síðustu tvö ár vegna Covid en í fyrra var það flautað af nánast korteri fyrir ræsingu.

Margir hlauparar færðu skráningu yfir á þetta ár en síðan fyrst var hlaupið hefur yfirleitt selst upp í það á fjórum til sex mínútum.

„Við höfum ekkert verið að gera í markaðssetningu. Þetta selst alltaf upp og þetta er kannski ekki mjög sýnilegt hlaup. Við erum með gamla heimasíðu og Facebook-síðu sem er virk tvisvar á ári nánast. En við erum pínu viljandi að gera það því eftirspurnin er allt of mikil nú þegar,“ segir Hilmar.

Sólin skein skært á Norðurlandi í gær þegar Fréttablaðið sló á þráðinn til Hilmars. Hann var þá sæll og glaður enda hefur veðrið verið hálfömurlegt þetta sumarið.

„Það er pínu léttir að sjá hvernig veðrið er að spilast. Maður er nánast að fara á límingunum að sjá tveggja stafa hitatölur,“ segir hann léttur.

Um 40-50 sjálfboðaliðar standa að hlaupinu og fjögurra manna stjórn ber hitann og þungann af því.

„Allir þessir sjálfboðaliðar eru heimamenn úr Kelduhverfi og Öxarfirði. Þessu er haldið uppi af þeim. Þetta er stór viðburður og væri ekki möguleiki án allra sjálfboðaliðanna. Margir hverjir hafa verið að vinna við hlaupið frá upphafi.“

Í Jökulsárhlaupinu er hægt að hlaupa þrjár vegalengdir: 32,7 kílómetra, 21,2 kílómetra og 13 kílómetra. Öll hlaupin enda í Ásbyrgi. Lengsta leiðin byrjar við Dettifoss. Millivegalengdin leggur af stað frá Hólmatungum og stysti leggurinn byrjar við Hljóðakletta.

Hilmar bendir á að fimm drykkjarstöðvar séu á leiðinni og klöngrast sjálfboðaliðar með vatn og annað allt að einn og hálfan kílómetra frá vegi.

„Það er bras að koma öllu þangað. Það er hægt að keyra langleiðina en það þarf að bera allt á stöðvarnar yfir móa og mela.“