„Það er mjög mikilvægt að taka vel á móti fólki sem er að koma úr fangelsi, sérstaklega ef maður hugsar þetta út frá því að afplánun sé betrunarvist,“ segir Sigríður Ella Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum.

Hún fer fyrir verkefninu Aðstoð eftir afplánun sem snýr að því að veita einstaklingum stuðning sem hafa lokið afplánun í fangelsi. „Verkefnið er sett upp þannig að einn sjálfboðaliði sinnir einum þátttakanda sem er að ljúka afplánun í fangelsi, með þarfir og væntingar einstaklingsins í huga,“ segir Sigríður.

„Gert er ráð fyrir að hver samfylgd vari í ár þar sem sjálfboðaliði aðstoðar einstaklinginn við að aðlagast samfélaginu, nýta sér opinbera þjónustu, efla félagslegt öryggi og öðlast tiltrú á eigin getu sem áhrifavaldi í eigin lífi,“ bætir hún við.

Sigríður segir flókið fyrir fólk að koma úr fangelsi og takast á við þá hluti sem bíða þess. Það sé því mörgum afar mikilvægt að finna fyrir stuðningi að afplánun lokinni.

Hlutfall íslenskra fanga sem sitja inni vegna fíkniefnabrota hækkaði milli áranna 2020 og 2021 úr 35 í 37,4 prósent. Ísland er enn með næstmesta fjölda fíknifanga í Evrópu, samkvæmt úttekt Evrópuráðsins, á eftir Lettlandi.

Í skýrslunni, sem nær til alls ársins 2021, kemur fram að föngum hafi fækkað á Íslandi, úr 164 í 150, þegar gæsluvarðhaldsfangar eru teknir með í töluna.

Sigríður segir umsóknum sem berist til verkefnisins fjölga mikið frá ári til árs. Rauði krossinn leiti nú sjálfboðaliða til að aðstoða fangana en fleiri umsóknir berist en starfandi sjálfboðaliðar geti sinnt.

„Þátttakendur í verkefninu eru líka mun opnari núna en þeir voru þegar við vorum að byrja og það er ótrúlegt hvað okkur er alltaf vel tekið. Fangarnir sýna okkur gífurlegt traust því það þarf mikið hugrekki til þess að taka þetta skref,“ segir Sigríður.

„Allir eiga rétt á að vera hluti af samfélaginu en það getur verið mjög flókið fyrir fólk sem er að losna úr fangelsi að gera hvers kyns hluti. Til dæmis að fá vinnu eða íbúð þar sem óskað er eftir sakavottorði,“ útskýrir hún.

„Eftir fjarveru úr samfélaginu er margt sem þarf að huga að og mikilvægt að hafa stuðning út í samfélagið og það þurfa að vera til fjölbreyttari úrræði fyrir þennan hóp sem mætir oft fordómum, eins og margir aðrir jaðarhópar.“

Rauði krossinn vinnur út frá hugmyndafræði skaðaminnkunar svo það er ekki krafist edrúmennsku til að taka þátt í verkefninu. Sigríður segir þó mikilvægt að allir geti átt í góðum samskiptum. „Með þessari hugmyndafræði stækkar sá hópur sem getur nýtt sér þjónustuna og allir geta sótt um.“