Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra kynnti í dag drög að nýrri matvælastefnu Íslands á Matvælaþingi sem haldið verður í Silfurbergi í Hörpu í dag. Þingið er nú haldið í fyrsta skipti í sögu Íslands en því er ætla að vera vettvangur fyrir pallborðs umræður og gangrýni á þá matvælastefnu sem ráðuneytið kynnir í dag.

„Ég býð ykkur sérstaklega velkomin hingað á matvælaþing sem haldið er í fyrsta skipti í sögunni,“ sagði Svandís við upphaf þingsins en hún vonaði að umræður yrðu opinskáar og gagnrýnar. „Það er mikilvægt að raddir sem flestra fái að heyrast,“ en fjölbreyttur hópur hagaðila og matvælaframleiðenda er viðstaddur á þingin.

Svandís talaði um það að þær forsendur sem matvælastefna verði að byggja á sé sjálfbærni en nýlegar aðstæður í heiminum gerðu það að verkum að slíkt væri mikilvægara en áður. Nefndi hún sérstaklega loftslagmál og þau vandamál sem sköpuðust í matvælaframleiðslu á heimsvísu vegna innrásar Rússlands í Úkraínu.

„Það eru ríkar forsendur fyrir hendi að byggja forsendur okkar á sjálfbærni,“ sagði Svandís en það er eitt af meginmarkmiðum matvælastefnunnar ásamt því að tryggja fæðuöryggi á Íslandi og aðgang Íslendinga að heilbrigðum og næringarríkum mat.

Fiskeldi sem þriðja framleiðslugreinin

Matvælaframleiðsala í heild er í miklum vexti samkvæmt þeim tölum sem Svandís kynnti á þinginu. Þá sagði hún að „Rannsóknir og nýsköpun eru þættir sem gegna lykilhlutverki í þeirri þróun,“ sagði Svandís en einnig nefndi hún að hér væri að fæðast ný framleiðslugrein.

„Í gegnum tíðina hefur framleiðsla hér á landi byggt á landbúnaði og sjávarútvegi. Þriðja framleiðslugreinin er svo að ryðja sér hér rúm en það er fiskeldi,“ sagði Svandís og nefndi einnig að unnið sé að stefnumörkun í fiskeldi og nefndi að unnið yrði út frá skýrslu sem unnin var af Boston Consulting sem skoðaði fiskeldi á Íslandi ítarlega.

Fjölmennt er á ráðstefnunni en þar koma saman hagaðilar og framleiðendur matvæla. Þórólfur Guðnason fyrrverandi sóttvarnarlæknir er meðal þeirra sem fer með erindi á ráðstefnunni.
Fréttablaðið/AntonBrink

Umræður hafi áhrif

Ráðuneytið mun vinna úr því sem sett verður fram á þinginu áður en stefnan verður sett endanlega sett fram og munu því umræðurnar mögulega verða til þess að hagræða stefnunni.

Á þinginu verða fjölbreyttar pallborðsumræður þar sem m.a. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Halla Logadóttir orkumálastjóri og Þórólfur Guðnason fyrrum sóttvarnalæknir munu taka þátt. Stjórnandi ráðstefnunnar er Brynja Þorgeirsdóttir.

Gestum ráðstefnunnar gefst kostur á því að gefa athugasemdir um þau mál sem rædd voru á þinginu í gegnum app en þær verða þá vistaðar og nýttar til þess að setja fram lokadrög matvælastefnu landsins.

Meðal gesta á þinginu er Olga Trofimtseva, Úkraínsk stjórnmálakona, stjórnandi og doktor í landbúnaðarvísindum en einnig Pete Ritchie frá Skotlandi en hann stýrir samtökunum Nourish Scotland sem hafa það markmið að tryggja aðgang að næringarríkum mat í landinu á viðráðanlegu verði.