Nokkur tilfelli apabólu, sjaldgæfs sjúkdóms sem hingað til hefur að mestu verið bundinn við Afríku, hafa greinst í Evrópu og Bandaríkjunum undanfarna daga.
Heilbrigðisyfirvöld í Portúgal greindu frá því í gær að fimm tilfelli hefðu greinst þar í gær og þá greindust tvö tilfelli til viðbótar á Bretlandseyjum.
Sjúkdómurinn hefur einnig greinst í Massachusetts í Bandaríkjunum í einstaklingi sem hafði nýlega ferðast til Kanada. Grunur leikur á að fleiri hafi greinst emð sjúkdóminn í Portúgal en það hefur ekki verið staðfest.
Apabóla er skyld bólusótt en sjúkdómurinn hefur einkum verið bundinn við lönd í mið- og vesturhluta Afríku. Helstu einkenni eru hiti, höfuðverkur, vöðvaverkir, verkir í baki, bólgnir eitlar og þreyta.
Um einum til þremur dögum eftir smit myndast útbrot sem oftar en ekki byrja í andliti og dreifa sér svo um líkamann. Sjúklingar sem ná sér gera það yfirleitt á tveimur til fjórum vikum en dánartíðni í Afríku vegna sjúkdómsins er um 10 prósent, að því er fram kemur á vef Sóttvarnastofnunnar Bandaríkjanna, CDC.