Heilbrigðisráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um hvort kynbundið áreiti og ofbeldi gagnvart konum við kvensjúkadómaskoðun og fæðingar ekki verið rannsakað á Íslandi. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur þingmanns.

Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri og embætti Landlæknis höfðu engar upplýsingar um að slíkar rannsóknir hefðu verið gerðar hér á landi.

„Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala er sjaldgæft að kona tilkynni spítalanum um að hún telji sig hafa orðið fyrir áreiti eða kynbundnu ofbeldi við kvensjúkdómaskoðun eða fæðingu. Ekki liggur fyrir nákvæm skráning um þessi atvik. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri var eitt slíkt atvik tilkynnt á síðastliðnum 20 árum og fór málið í hefðbundinn kvörtunarferil hjá embætti landlæknis,“ segir í svari heilbrigðisráðherra.

Rósa Björk spurðist fyrir um hvort Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, teldi þörf á að viðurkenna að kynbundið áreiti og ofbeldi gæti átt sér stað í tengslum við fæðingar og kvensjúkdómalækningar og hvort herða ætti lög um réttindi sjúklinga, líkt og Evrópuráðsþing hefur hvatt aðildarríki Evrópuraðsins til að gera.

Svandís sagði í svari sínu að mikilvægt væri að viðurkenna að slíkt áreiti og ofbeldi gæti átt sér stað.

„Þá telur ráðherra enn fremur mikilvægt í ljósi þeirra réttinda sem sjúklingum eiga að vera tryggð með lögum um réttindi sjúklinga, en einnig í ljósi ályktunar Evrópuráðsins nr. 2306 frá 2019, að öll atvik þar sem sjúklingur telur sig hafa orðið fyrir áreiti eða ofbeldi við veitingu heilbrigðisþjónustu séu skráð á heilbrigðisstofnunum og hjá öðrum veitendum heilbrigðisþjónustu. Sérstaklega þarf að huga að skráningu atvika í tengslum við kvensjúkdómaskoðanir og fæðingar í ljósi þess hve viðkvæmri stöðu konur geta verið í þegar þær sækja þessa tegund heilbrigðisþjónustu.“

Ráðherra segir að með nákvæmri atvikaskráningu yrði ljóst hvort þörf væri á laga- eða reglugerðarbreytingum. Skráningin gæti gefið betri mynd af því hvort tilefni sé til að fara af stað í upplýsinga- og fræðsluátak um kynbundið áreiti og ofbeldi gagnvart konum við kvensjúkdómaskoðun og fæðingar.

Í svari ráðherra kemur fram að upplýsingabæklingur um réttindi sjúklinga hefur ekki verið uppfærður frá því að hann var gefinn út árið 1999. Sama á við um bækling um lög um réttindi sjúklinga fyrir heilbrigðisstarfsmenn sem gefinn var út ári síðar.