Í mars hóf Öryrkjabandalagið nýtt aðgengisátak. Markmið átaksins er að kanna aðgengi fyrir fatlaða og hreyfihamlaða í opinberum stofnunum og öðrum stöðum þar sem fólk þarf að geta komist um og á að vera aðgengilegt fyrir alla.

Þær Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir og Guðrún Ósk Maríasdóttir hafa verið ráðnar til að sinna verkefninu næsta hálfa árið. Þær eru báðar mjög vel að sér þegar kemur að því að taka út aðgengi. Margrét Lilja nemur lífeindafræði við Háskóla Íslands, samhliða störfum sínum við Aðgengisátakið. Hún er með EDS, sem er sjaldgæfur bandvefssjúkdómur og taugatruflun. Hann hefur í för með sér að hún þarf oftast að nota hjólastól til að komast sína leið. Guðrún Ósk er með meistaragráðu í matvælafræði. Dóttir hennar, 5 ára, er með erfðasjúkdóm sem kallar á að hún noti hjólastól.

Margrét Lilja segi að það sé mjög mikilvægt, sama hvort það er í heilbrigðis- eða menntakerfinu, að það komist allir að og er því markmið átaksins að skoða helstu staði sem eiga að vera öllum aðgengilegir.

„Aðgengismál hafa verið í lamasessi og lengi litið svo á að það sé allt í góðu. Að það sé vel af sér vikið vegna þess að það er búið að breyta miklu þannig allt sé fínt og flott. Breytingarnar eru auðvitað rosalega góðar, en það er margt annað sem þarf að huga að og vekja athygli almennings á,“ segir Margrét.

Hún segir að meira að segja í nýbyggingum sé aðgengi oft ábótavant.

„Nýbyggingar sem eiga að vera byggðar eftir algildri hönnun eru ekki aðgengilegar fyrir alla. Þar er litið svo á að hönnunin eigi að vera flott og til dæmis súlum stundum plantað niður hér og þar. Þá er hönnunin tekin fram yfir að rýmið sé aðgengilegt fyrir alla,“ segir Margrét Lilja.

Hún segir stöðuna sérstaklega slæma fyrir þau sem eru sjónskert eða blind.

„Eins auðvelt og það er að setja upp leiðarlínur, þá er það ekki gert. Eins fyrir heyrnalausa. Á mjög fáum stöðum eru útsendingar, eða það sem er í hljóðkerfi, sent beint í heyrnartæki. Það er mjög algengt að það sé þannig erlendis,“ segir Margrét.

Á myndinni eru þær Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir og Guðrún Ósk Maríasdóttir.
Mynd/Öryrkjabandalag Íslands

Lítill hluti þjónustunnar fyrir allar konur

Fyrstu staðirnir sem þær Guðrún tóku út í átakinu voru leitarstöð Krabbameinsfélagsins og kvennadeild Landspítalans. Hér að neðan fylgja tvö myndskeið þar sem greinilega má sjá hversu skert aðgengi er fyrir þá sem eru, eins og Margrét, í hjólastól. Hún segir að eftir úttektina sé ljóst að aðgengi sé sérstaklega ábótavant á kvennadeild Landspítalans.

„Í myndskeiðinu má sjá hversu óaðgengilegir margir af þessum stöðum eru. Þetta eru staðir sem eru að bjóða upp á þjónustu sem á að vera fyrir allar konur, en raunin er sú að það er lítill hluti þjónustunnar sem er fyrir allar konur," segir Margrét Lilja og bætir við:

„Starfsfólkið er alls staðar til í að gera hvað sem er fyrir fólk. Það eru byggingar og aðbúnaður sem er ábótavant. Eins og skoðunarbekkir eru slæmir, það eru engar flutningslyftur á kvennadeildinni eða á leitarstöðinni. Það eru engar leiðarlínur neins staðar fyrir blindar konur. Þannig það er engin leið að rata neitt nema maður sé með manneskju með sér, ef maður er blindur eða sjónskertur. Það er ótrúlega margt sem er ábótavant,“ segir Margrét.

Hér að neðan má sjá myndskeið af úttekt þeirra á aðgengi að kvennadeild Landspítalans.

Leggja fram hugmyndir um úrbætur

Eftir að hver staður er tekinn út skrifa þær skýrslu. Þar er útskýrt hvað þurfi að bæta og lagðar fram hugmyndir að úrbótum. Skýrslurnar eru sendar á þá staði sem skoðaðir eru og þá aðila sem sjá um byggingarnar.

Hér að neðan má síðan sjá myndskeið af úttekt þeirra á leitarstöð Krabbameinsfélagsins.

Benda bresti og það sem vel er gert

Verkefnið hófst formlega þann 22. mars á alþjóðlegum degi aðgengis og er stefnt á að gera úttektir á aðgengi, benda á bresti en einnig það sem vel er gert. Í kjölfarið verður síðan farið í markvisst átak til að vekja athygli á mikilvægum þáttum aðgengis.

„Við eigum öll að hafa sama aðgang að samfélaginu en þrátt fyrir það eigi að byggja húsnæði og mannvirki án hindrana rekst fatlað fólk óvíða á tálma. Aðhald er lítið og það þyrfti að setja upp opinbert aðgengiseftirlit með mannvirkjum. Aðgengisátaki ÖBÍ er ætlað að vekja athygli á þeim hindrunum sem eru í vegi fatlaðs fólks, en ekki endilega annarra,“ segir á heimasíðu samtakanna.

Margrét segir að hægt verði að fylgjast með átakinu á samfélagsmiðlum þegar líður á. Þær vinni að því núna að koma upp síðum á öllum helstu samfélagsmiðlum. Til að byrja með er hægt að fylgja þeim hér á Facebook síði verkefnisins.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir sem þær Guðrún og Margrét tóku í úttekt sínum á landspítalanum og á leitarstöðinni.

„Það er undantekningatilfelli að maður fékk að sjá eitthvað meira en bara augabrúnirnar á sér í speglum í öllu húsinu. Enn og aftur, ekki gert ráð fyrir fólki fyrir utan „normið“ s.s. ekki lágvöxnum, fötluðum eða börnum,“ segir Margrét.
Mynd/Öryrkjabandalag Íslands
„Afgreiðsluborð hátt, hvergi hægt að setjast niður við borðið eða rúlla undir það. Hjólastóllinn minn (á myndinni) er mjög hár miðað við aðra og flestir myndu hreinlega ekki sjá yfir borðið,“ segir í úttekt þeirra.
Mynd/Öryrkjabandalag Íslands
„Þetta er eitt af skárri salernum í húsinu og þetta er á fyrstu hæðinni. Það er samt sem áður mjög þröngt og alls ekki allir sem geta nýtt sér þessa aðstöðu,“ segir í úttektinni.
Mynd/Öryrkjabandalag Íslands