Oddur Ævar Gunnarsson
odduraevar@frettabladid.is
Laugardagur 3. október 2020
08.00 GMT

„Ég er í rauninni bara nokkuð hvatvís maður. Ég stýrist dálítið af magatilfinningu minni og það hefur auðvitað leitt mig á ótrúlegustu slóðir. Ég held það sé samt ekki þannig að það leiði mig út í gönur en ég leyfi innsæinu dálítið að ráða mínu lífi.“

Þetta segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sem eygir þess von að leiða næstu ríkisstjórn Íslands eftir þingkosningar næsta haust. Hann viðurkennir að hann sé mikil tilfinningavera en Loga er margt til lista lagt. Hann vann á sjó, sat fyrir nakinn, var efnilegur í handbolta, dansaði með Skriðjöklum og lærði til arkitektúrs í Osló.

Gott að alast upp á Akureyri

„Það var gott að alast þar upp,“ segir Logi um æskuár sín á Akureyri. „Það er ágætt að vera stór fiskur í lítilli tjörn og gott að vera í umhverfi þar sem allir þekkja alla og þú lifir við það mikið öryggi að þú færð gríðarlegt frelsi til að gera það sem þú vilt.

En mér fannst samt gott að hafa komist burtu, mér fannst gott að hafa flutt til útlanda og tekið út þroska minn þar þegar ég var að læra. Og mér finnst yndislegt að búa í Reykjavík. Þannig ég er kannski að einhverju leyti eins og kamelljón. Mér líður vel á flestum stöðum,“ segir hann og brosir.

„Og í staðinn fyrir að henda mér til hliðar þá var ég bara látinn dansa.“

Ungmennafélagið Skriðjöklar

Logi var eitt sinn vel þekktur sem einn af dönsurum og lagahöfundum sveitaballssveitarinnar Skriðjökla. „Það byggir kannski ekkert á hæfileikum. Skriðjöklar voru stofnaðir, segja sumir, til þess að komast ókeypis inn á útihátíðina í Atlavík. Og kannski er það satt. Við vorum mjög margir í hljómsveitinni. Og þetta varð svona á endanum einskonar ungmennafélag. Ég var til dæmis ekki bestur á gítar. Og ég var ekki næstur á gítar.

Og í staðinn fyrir að henda mér til hliðar þá var ég bara látinn dansa. Svo voru aðrir látnir vera í miðasölunni, keyra rútuna eða voru bara með í rútunni. Við státuðum af því í langan tíma að vera eina hljómsveitin á landinu sem gat á miðjum dansleik skipt út af ef eitthvað óvænt kom upp á. Þetta var ótrúlega skemmtilegur tími og sennilega kynnist ég þarna mínum allra bestu vinum. Og það heldur út lífið þó við séum alveg ótrúlega ólíkir. Og mæður okkar segja að það sé ekkert endilega hollt að við séum að hittast mikið,“ segir Logi og hlær.

Logi segir blöndu af ákafa, ástríðu, heppni og aðstæðum hafa komið honum á þann stað sem hann er á í dag. Hér heldur hann á nágrannaketti.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Fjörug móðir en þyngri faðir

Hann viðurkennir að hann sé einstaklega listrænn og rekur hann það til fjölskyldu sinnar. Draumur Loga var lengi vel að verða myndlistamaður en þann draum lifir sonur hans, Úlfs Logasonar, sem nú er í námi í myndlist í Þýskalandi.

„Já, ég í rauninni elst upp á heimili með mjög mörgum systkinum. Fjórum systrum sem voru kraftmiklar. Og ég elst upp hjá sterkri og mjög fjörugri móður, sem kenndi mér að meta lífið og vera lífsglaður. En svo ólst ég upp hjá föður sem var svona aðeins þyngri en hafði listræna taug og var myndlistamaður.

Þar lærði ég í rauninni að meta myndlist, meta listir. Ég hafði nú reyndar ekki kjark í að fara að læra það sjálfur en lifi þann draum pínu í gegnum son minn sem er að læra út í Þýskalandi,“ segir Logi. „Þessi listræna hugsun kemur frá föður mínum. En ég veit ekkert hvaðan praktíkin kemur. Báðum vonandi!“

Sameinaði list og praktík

Logi rak um margra ára skeið arkitektúrstofuna Kollgátu á Akureyri. „Ég fór í arkítektúr, af því að mér fannst það sameina listsköpun og svona praktíska hugsun. Það er ágætt núna því stjórnmál snúast eiginlega um það. Og í dag þurfa stjórnmál að snúast um það, á þessum brjálæðislega skrítnum tímum sem við lifum. Það er að geta notað skapandi nálgun við mjög praktísk viðfangsefni,“ segir Logi.

Hann segist ætla að klára sinn starfsferil á sinni gömlu stofu. „Ég passa mig að eiga nógu mikið í henni til þess að ég verði ráðinn í vinnu þegar ég hætti á þingi. Því þar ætla ég að hætta, klára minn starfsferil.“

„Ég hefði örugglega orðið prýðileg gæs.“

Góður liðsmaður

Logi stundaði á sínum tíma handbolta. Hann segir að hugurinn hafi þó fljótt leitað annað, í hljómsveitarstandið og fleira.

„Það varð því aldrei neitt meira úr því. Ég áttaði mig líka á því mjög fljótt að ég er hópíþróttamaður. Ég var góður liðsmaður.

Ég hef stundum hugsað um það að það hafði kannski mótað mín viðhorf til stjórnunar. Ég hef alltaf verið hrifinn af oddaflugi fugla. Ég hefði örugglega orðið prýðileg gæs. Það held ég að hafi ekki síst mótað mig, þátttaka mín í hópíþrótt, að skilja mín takmörk, átta mig á mínum kostum og mikilvægi þess að lið vinni saman, hjálpi hvert öðru, styrki hvert annað og að allir fái aðeins að vaxa.“

Auðvelt að sitja fyrir nakinn

Það vakti landsathygli fyrir örfáum árum síðan þegar Logi birti mynd, þar sem hann sat fyrir nakinn í Myndlistarskólanum á Akureyri árið 1980. Hann segir það ekki hafa verið tiltökumál fyrir listhneigðan ungan mann að vinna fyrir sér með þessum hætti.

„Í fyrsta lagi ólst ég upp á heimili þar sem að myndlist var eitthvað sem skipti máli og var rætt og það var eitthvað sem að ég var mjög meðvitaður um. Að hluti af því að vera góður myndlistarmaður er að geta teiknað anatómíu. Og ef einhver ætlar að vera góður í því að teikna anatómíu, að þá þarf einhver að sitja fyrir. Þegar það hélst í hendur við að þetta var ágætis leið til þess að vinna sér inn peninga sem unglingar þurfa fyrir útgjöldum helgarinnar, þá var þetta mjög auðvelt fyrir mig. Saklaust!“ skýtur Logi inn í kíminn.

Logi situr fyrir nakinn fyrir nemendur í Myndlistarskóla Akureyrar árið 1980.
Mynd/Timarit.is

Öll verkefnin hurfu

Talið berst að pólitíkinni. Logi rifjar upp að hrunið hafi haft mikil áhrif á sig og þá ákvörðun að fara út í stjórnmálin. Þá hafi öll verkefni horfið og Logi nýbúinn að byggja sér hús. Tvennt hafi verið í stöðunni. „Annað hvort að taka þátt í Búsáhaldabyltingunni, fara niður á torg og berja í potta, sem var gríðarlega mikilvægt að fólk gerði og ég dáist að því fólki sem gerði það. Eða bara hreinlega að labba niður á Eyri og taka þátt í stjórnmálastarfi. Og ég valdi það. Síðan rekur bara eitt annað. Bland af ákafa, ástríðu, heppni og aðstæðum. Sem leiða svo til þess að ég er hérna í dag.“

Pólitískur menntskælingur

Í nærmynd Fréttablaðsins af Loga sem birtist síðasta haust tóku vinir og vandamenn hans það sérstaklega fram að þeir hefðu verið hissa á því að Logi hefði loks leiðst út í stjórnmál. Hann segir aðspurður um það hafa áhuga á ótrúlega mörgu.

„Ég hef hinsvegar verið pólitískur frá því ég var í menntaskóla. Ég byrja í menntaskóla sem mjög róttækur ungur piltur, fer meðal annars að bera út bæklinga árið 1983 fyrir Steingrím J. Sigfússon til að koma honum inn á þing. Síðan eftir menntaskóla fer ég til Noregs,“ segir Logi. Þar segist hann hafa orðið að sósíaldemókrata og hafði Gro Harlem Brundtland, þáverandi forsætisráðherra Noregs mikil áhrif á ungan mann.

„Ég held að þarna hafi ég orðið sósíaldemókrati. Og ef Steingrímur hefur eygt einhverja von á að ég kæmi aftur til hans í flokkinn þegar ég kæmi til baka, þá var henni eytt þarna. Eftir þetta var Samfylkingin minn flokkur.“

Hann hitti svo sjálfa Brundtland í byrjun ársins. „Maður varð svona bara pínu eins og unglingsstrákur fyrir framan Lionel Messi,“ segir hann og hlær.

Logi var eini kjördæmakjörni þingmaður flokksins árið 2016 og bjargaði flokknum þannig frá frekara afhroði. Hann var valinn formaður flokksins sama ár og svo sjálfkjörinn með 100% atkvæða árið 2018.

„Mér finnst garðar með fjölbreyttum lággróðri sem blómstrar allt árið miklu fallegri en skrúðgarður með einu háu tréi sem varpar skugga á allt.“

Aðspurður um eigið reynsluleysi segir Logi:

„Ég hugsaði eiginlega ekki út í það. Ég býst við að þetta sé, þó ekki jafn lífshættulegt, en svipaðar aðstæður og ef þú dettur útbyrðis úti á rúmsjó. Að þá eru auðvitað bara fyrstu viðbrögðin að bjarga sér,“ segir hann. Hann hafi svo áttað sig á ábyrgðinni. „Það var svo miklu léttara að axla hana því allt í einu áttaði maður sig á því að maður hefði svo mikið af fólki með sér,“ segir Logi.

Tiltekur hann þar sérstaklega Oddnýju Harðardóttur, fyrrverandi formann flokksins. Segir hann flokkinn hafa braggast og tiltekur grasrótina og starf flokksins um land allt. „Þá áttaði maður sig á því að maður væri ekki einn. Maður var aftur kominn um borð í bátinn og maður var ekki að róa, á enhverri gamaldags skentu, heldur á seglskútu sem á sér kannski fá takmörk.“

Sagður illa tengdur rétta fólkinu

Logi segir aðspurður Samfylkinguna árið 2020 um margt ólíka því sem hún var árið 2016. Hann segir að stundum hafi verið sagt að hans akkilesarhæll sem formaður sé að hann sé illa tengdur rétta fólkinu.

„Og kannski er það að einhverju leyti rétt. Ég elst upp úti á landi, hoppa yfir Reykjavík og fer í nám erlendis og eignast ekki vini hér í háskólaumhverfinu. En á móti hef ég alltaf verið mjög vinamargur. Ég hef alltaf umgengist mjög mikið af fólki og hef alltaf haft gaman af því að hitta fólk. Þannig ég var auðvitað alveg sannfærður um það á þessum tíma að ég kæmist inn. Vegna þess að ég vissi það að það væri fullt af fólki á Akureyri sem tryði á mig,“ segir Logi um Alþingiskosningarnar þar sem hann bjargaði Samfylkingunni.

Samfylkingin hafði fengið 5,7 prósent í Alþingiskosningunum 2016 þegar Logi tók við forrustu í flokknum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hann segir áhugann á þátttöku í flokknum hafa glæðst á síðustu fjórum árum. Flokksmenn hafi nú sannfæringu fyrir því að Samfylkingin geti orðið kjölfestuafl. Það hafi aldrei verið nauðsynlegra en nú á umbrotatímum COVID-19 og hnattrænnar hlýnunar.

„Þá skiptir ofboðslega miklu máli að það séu rétt öfl sem stýra. Vegna þess að þau sem að ég er að berjast á móti, dag frá degi, þau eygja líka möguleika í þessari stöðu,“ segir Logi.

Hann segir aðspurður óviss hvort sinn persónuleiki eigi þátt í þessum aukna áhuga. „En ég held að á þessu tímabili í sögu flokksins, hafi það að minnsta kosti verið kostur að ég er nógu æðrulaus og lítið upptekinn af hlutverkinu í sjálfu sér, þó ég taki það alvarlega, til þess að leyfa fólki að vaxa og blómstra í kringum mig,“ segir Logi. Það sé að gerast nú.

„Mér finnst garðar með fjölbreyttum lággróðri sem blómstrar allt árið miklu fallegri en skrúðgarður með einu háu tréi sem varpar skugga á allt.“

Traustið hverfur hratt

Heyrst hefur að samstarf stjórnarandstöðunnar hafi sjaldan gengið jafn illa og þetta kjörtímabil. Er það rétt?

„Það á auðvitað ekki að koma neinum á óvart að stjórnarandstaða skuli ekki ganga í einum takti. Af því að stjórnarandstaðan er í rauninni leifarnar af þeim sem ekki komust í ríkisstjórn. Þegar svona ólíkir flokkar veljast í ríkisstjórn eins og núna, sem eru kannski ekkert svo rosalega ólíkir samt, verður náttúrulega stjórnarandstaðan líka samsett af mjög ólíkum öflum. Ég læt það ekki trufla mig,“ segir hann og bendir á að valkostir í stjórn eftir næstu kosningar verði mögulega bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu.

Samfylkingin mældist með 17,2 prósenta fylgi í nýjustu könnun Fréttablaðsins. Það er af sem var áður þegar flokkurinn var höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins og fékk mest 31 prósenta fylgi árið 2003.

„Nei, auðvitað er maður aldrei ánægður með það að fylgið skuli ekki vera jafnhátt og það var þegar það var hæst,“ segir Logi. „ En í fyrsta lagi þarf maður einhvern veginn að vera auðmjúkur gagnvart því að það tekur langan tíma að reisa við traust sem að hverfur mjög hratt, eins og gerðist hjá okkur. Í öðru lagi þá lifum við í flokkalandslagi sem er allt öðruvísi heldur en það var, þegar flokkurinn var stofnaður. Nú eru einfaldlega fleiri flokkar að berjast um hituna og margir róa á sömu mið.“

Vill sameina vinstri menn

Hvers vegna heldurðu að það sé? Er Samfylkingin ekki opinn flokkur?

„Jú, jú. Ég held að það geti að einhverju leyti stafað af því að hér varð efnahagshrun fyrir tíu árum og eðlilega var fólk óánægt. Sem betur fer búum við líka í samfélagi þar sem að allir geta boðið sig fram og flokkar geta orðið til. Ég hef sagt að hlutverk Samfylkingarinnar er að sameina vinstrimenn um betra samfélag,“ segir Logi. Í upphafi hafi verið hugsunin að það myndi gerast innan eins flokks.

„Næsta kynslóð, sem tekur við þessum flokki mun vonandi geta sameinað okkur svo aftur inn í einn flokk.“

„Í augnablikinu, á meðan ég er hérna, þá er staðan sú að það þarf að gerast með samstarfi nokkurra flokka. Ef mér tekst það, þá er ég að minnsta kosti trúr markmiðum Samfylkingarinnar. Næsta kynslóð, sem tekur við þessum flokki mun vonandi geta sameinað okkur svo aftur inn í einn flokk.“

En þú ert alveg á því að Samfylkingin sé opinn flokkur? Fólkið sem stofnar þessa nýju flokka á vinstri vængnum, í Flokki fólksins til að mynda, það er alveg pláss fyrir Ingu Sæland til dæmis í Samfylkingunni?

„Algjörlega, algjörlega. Guð minn almáttugur, ef það væru nú allir í heiminum sem hefðu jafngott hjartalag og Inga Sæland, þá værum við bara í þokkalegum málum,“ segir Logi.

Logi segir Samfylkinguna opinn flokk en segist vona að næstu kynslóð takist að sameina vinstrið í einn flokk.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Útilokar Sjálfstæðisflokk og Miðflokk

Hann segir aðspurður alveg ljóst með hverjum flokkurinn geti ekki unnið í ríkisstjórn. Ekki sé málefnanlegur grundvöllur fyrir samstarfi með Sjálfstæðisflokknum og Miðflokki. Flokkurinn geti fundið sameiginlega fleti með öðrum flokkum byggi þeir á jöfnuði og réttlæti.

„Það getur verið ný stjórnarskrá, það getur verið skynsamleg auðlindanýting sem skilar fólki réttmætum arði. Það getur verið grunnþjónusta sem jafnar kjörin og gerir öllum kleyft að lifa sómasamlegu lífi.

Ég held það sé bara mjög mikilvægt að fólk sem hefur nokkuð sameiginlega sýn á þessar stoðir vinni saman. Ég held að það geti verið eiginlega allir aðrir en þessir tveir flokkar sem ég nefndi.“

Ef þú verður forsætisráðherra, muntu tala áfram í sama myndmáli?

„Fyrst og fremst er það hlutverk mitt að Samfylkingin nái því markmiði sínu að mynda sterka ríkisstjórn sem getur leitt okkur í áttina að réttlátara og betra samfélagi. Hvar sem ég verð í þeirri ríkisstjórn eða hvar sem ég verð þegar sú ríkisstjórn verður mynduð þá mun ég örugglega halda áfram að tala eins og ég hef gert hingað til.“

Athugasemdir