„Ég lærði íslensku á námskeiði við Háskóla Íslands fyrir sex árum síðan en hef ekki talað hana lengi og því þurfti ég að rifja tungumálið upp“ segir Richard. Hann segir að það hafi einungis tekið um viku að geta spjalla við fólk. Framburðurinn er ekki ósvipaður og hjá innflytjendum sem búið hafa um ár eða áratuga skeið hérlendis. Richard segist skilja íslensku betur en hann tali það. Þá getur hann einnig skrifað á íslensku. „Ég lærði sænsku fyrst og þess vegna var þetta ekki mjög erfitt“ segir hann. „Ég talaði samt betri íslensku áður.“ Vanalega getur Richard lært nýtt tungumál frá grunni á þremur mánuðum en kannski einn mánuð ef hann kann svipað tungumál.

Richard, sem er breskur, er nýkominn frá Makedóníu en þaðan er eiginkona hans. Eiga þau saman unga dóttur sem einnig hefur lært mörg tungumál. „Ég og konan mín tölum saman á makedónsku. Við dóttur mína tala ég frönsku, þýsku, spænsku og ensku“ segir Richard.

Hann starfar hjá fyrirtækinu The Social Element sem sér um samfélagsmiðlaherferðir fyrir stofnanir og fyrirtæki. Tungumálakunnátta hans hefur nýst honum vel á því sviði. Richard lærir tungumál eins og flestir aðrir, með námskeiðum og endurteknum æfingum. „Besta leiðin til að læra er samt að tala við fólk. Ef ég tala ekki tungumálið getur kunnáttan tapast niður“ segir hann.

Fimm ára gamall lærði Richard frönsku og skömmu síðar lærði hann velsku en hann ólst upp við mörk Englands og Wales. „Það næsta sem ég lærði var spænska og í háskóla lærði ég finnsku, portúgölsku og ítölsku.“ Bættust svo tungumálin við hvert af öðru. „Alls hef ég lært meira en 50 tungumál og ég get núna talað 25.“ Má þar til dæmis nefna albönsku, kínversku, hebresku, tyrknesku og esperanto.

Nú leggur Richard stund á japönsku en hann er á leiðinni til borgarinnar Fukuoka í október. Þar mun hann stýra margtyngisráðstefnu (polyglot) í sjöunda skiptið. Árið 2017 var ráðstefnan haldin í Hörpu í Reykjavík.

Hér er myndband af Richard á Íslandi