Í Evrópu gengur nú hitabylgja yfir og hefur hitastig mælst allt að 37 til 40 gráðum í Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi, Sviss og öðrum löndum. Í Frakklandi hefur skólum verið lokað og í París, þar sem hitinn er hvað mestur, hafa um 900 „kaldir staðir“ verið settir upp fyrir almenning.

Björn Leó Brynjars­son, leik­skáld, býr í Ber­lín þar sem hann leggur nú loka­höndá leik­ritið Stór­skáldið sem verður frum­sýnt í Borgar­leik­húsinu í haust. Björn var leik­skáld Borgar­leik­hússins síðast­liðinn vetur og er leik­ritið af­rakstur þess. Björn segir að hitinn sé svo mikill að hann haldi sig innandyra með viftuna á fullu.

„Ég er hérna að leggja loka­hönd á leik­ritið og gera það til­búið til að fara á svið. Maður situr bara á nær­buxunum með viftuna á sér. Það er ó­geðs­lega heitt. Í Ber­lín eru eigin­lega bara verslanir með loft­kælingu, það er ekki oft í í­búðum hérna. Það er ef­laust þýska hag­sýnin,“ segir Björn Leó í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hann segir að ef­laust megi finna þær í ný­legri húsum, en að hann búi í eldra húsi.

„Gluggarnir eru bara lokaðir og viftan á milljón,“ segir Björn.

Björn segir að í dag sé um 37 stiga hita og að hitanum eigi ekki að linna. Á sunnu­dag sé spáð allt að 38 stiga hita.

„Það er mikill raki í loftinu í Ber­lín og borgin er í smá dæld þannig að það er lítil hreyfing á loftinu,“ segir Björn.

Björn Leó Brynjarsson, leikskáld, hefur búið í Berlín frá því í janúar.
Mynd/María Guðjohnsen

Sjá hlýnun jarðar fyrir utan gluggann

Spurður hvort borgar­yfir­völd hafi á ein­hvern hátt brugðist við hitanum segir hann að hann hafi sjálfur ekki orðið var við neinar ráð­stafanir, en að hann geri þó ráð fyrir að eitt­hvað hafi verið gert fyrir til dæmis heimilis­lausa. Þá hafi í Branden­burg verið varað við skógar­eldum og að slökkvi­liðið sé vel undir­búið fyrir það.

„Í skólanum hjá kærustunni minni, Maríu, voru þau að setja vatn við inn­ganginn þannig að fólk gæti fengið sér að drekka,“ segir Björn.

Hann segir að enn séu þó allar verslanir opnar og að, sem dæmi, með­leigjandi hans sem vinnur á kaffi­húsi hafi farið í vinnuna í morgun.

Björn segir að hitinn sem gangi nú yfir sé ekki það eina undarlega sem hann hafi orðið var við undanfarnar vikur hvað varðar veðurbreytingar.

„Það hefur alla­vega tvisvar komið svona dúndur þrumu­veður síðustu vikur. Veðr­áttan hefur því verið svo­lítið „inten­se“ í ein­hvern tíma. Þetta er pínu „spooky“. Manni finnst maður sjá hlýnun jarðar gerast fyrir utan gluggann,“ segir Björn að lokum.

Í Berlín leitar fólk einnig í gosbrunna til að kæla sig í gífurlegum hitanum.
Fréttablaðið/EPA

Fólk baðar sig í gosbrunnum í París

Ás­geir Hall­dórs­son er staddur í París í Frakk­landi á­samt konu sinni, Ragn­hildi Dóru Elías­dóttur, og dóttur þeirra Karítas Öldu, sem er sex ára.

Í París er um 35 stiga hiti en Ás­geir segir að þeim líði þó eins og hitinn sé tals­vert meiri vegna mikils raka sem er í loftinu.

„Við erum með stelpuna hérna þannig sér­stak­lega hún er alveg búin á því að labba mikið," segir Ásgeir í samtali við Fréttablaðið.

Í París hefur verið sett af stað þriðja stigs við­vörunar­á­ætlun vegna mikils hita. Sem hluti af á­ætluninni er að setja upp allt að 900 „kalda staði“ þar sem hita­­stig er lægra en á nær­­liggjandi götum, svo sem í al­­mennings­­görðum, al­­mennings­­rými sem eru með loft­kælingu og svæði þar sem gos­brunnar og móðu­­vélar [e. Mist machines] hafa verið settar tíma­bundið upp.

Ásgeir segir að um allar götur séu götu­salar sem selji vatn á eina evru. Þau eru á hóteli nærri Eif­fel turninum og þó hann hafi ekki orðið var við að það hafi verið að gefa vatn þá hafi hann sé fólk baða sig og synda í nær­liggjandi gos­brunni.

„Það er stór gos­brunnur hérna og fólk var á kafi í honum að baða sig,“ segir Ás­geir.

Ásgeir Halldórsson með dóttur sinni, Karítas, í París í vikunni.
Mynd/Ásgeir Halldórsson

Tómt í Tívolí

Ás­geir segir að það hafi ekki allir látið hitann stoppa sig og að það megi sjá fólk úti á götum. Þau hafi kíkt í tívolí í morgun

„Við fórum með lest niður í bæ og það var tals­vert af fólki. Við fórum í tívolí með stelpuna og það var ekki mikið af fólki þar. Við vorum þar rétt fyrir há­degi og það var nánast tómt,“ segir Ás­geir.

Hann segir að það sé erfitt að vera í slíkum hita og því voru þau núna, um klukkan þrjú að staðar­tíma, komin upp á hótel til að hvíla sig á hitanum. Þar sé góð loft­kæling sem þau nýti sér.

Hann segir að vegna loft­kælingarinnar hafi þau náð að sofa vel, en eins og má í­mynda sér er hitinn á nóttunni einnig mjög mikill. Í nótt má sem dæmi sjá að hitinn fer lík­lega ekki undir 20 gráður og er í kringum mið­nætti enn í um 29 gráðum.

„Við vorum komin í gær­kvöldi upp á hótel um klukkan tíu og það var enn alveg sjóðandi heitt,“ segir Ás­geir.

Þau fara á morgun til Marseil­le í brúð­kaup. Þar er spáð svipuðu veðri. Spurður hvort hitinn sé að eyði­leggja ferðina svarar Ás­geir því neitandi. Hann segir að þau þurfi auð­vitað að passa enn betur upp á dóttir sína en að Ragn­hildur, kona hans, sé hjúkrunar­fræðingur og að hún hafi vitað nokkuð vel hvernig eigi að bregðast við í slíkum hita.

Þegar slíkur gífur­legur hiti gekk yfir Frakk­land árið 2013 þá létust allt að fimm­tán þúsund manns. Ás­geir segir að þau hafi svo sem ekki orðið vör við neitt hættu­á­stand en að þau hafi orðið vör við sjúkra­bíla. Hann gat þó alls ekki full­yrt að það tengdist endi­lega einungis hitanum, enda séu þau að gista í mið­borg Parísar.