Í­búar Pun­jabi héraðs í norður Ind­landi sjá nú loks aftur í Himala­ya-fjall­garðinn. Síðast­liðinn þrjá­tíu ár hefur mengun birgt þeim sýn en sést nú til fjalla í yfir 150 kíló­metra fjar­lægð.

Í skjóli út­göngu­banns í landinu hefur mengun snar­lækkað og hafa góð loft­gæði mælst í 16 af þeim 17 dögum sem bannið hefur verið í gildi. Þá mældist svif­ryksmagn í Dehli 44 prósent lægra á fyrsta degi út­göngu­banns og hefur batnað dag frá degi í kjöl­far þess.

Borgar­búar keppast nú við lýsa yfir lotningu sinni á þessari mögnuðu sýn og hrósa móður náttúru ó­spart á sam­fé­lags­miðlum. Myndir af tindum fjallanna hafa hlaðist inn á miðla á borð við Twitter og Insta­gram þar sem í­búar fagna út­sýninu.

Öllu skellt í lás

For­sætis­ráð­herra Ind­lands, Nar­endra Modi, til­kynnti að út­göngu­bann yrði sett á í vikurnar þann 25. mars síðast­liðinn. Öllum verslunar­mið­stöðvum, verk­smiðjum, skrif­stofum, mörkuðum og bæna­húsum var lokað. Einungis er opið í nauð­synja­verslunum.

Tæp­lega sjö þúsund manns hafa greinst með COVID-19 kórónaveiruna í landinu og hafa 228 látið lífið af völdum sjúk­dómsins í þessu næst fjöl­mennasta ríki heims.