Stjórn­endur skimunar­verk­efnisins við landa­mærin segjast ekki sjá fram á mikla fækkun þeirra sem þurfa að fara í skimun þrátt fyrir að far­þegar frá Þýska­landi og öllum Norður­löndunum, nema Sví­þjóð, þurfi ekki lengur að fara í skimun. Þeir segja lík­legt að flug­ferðum til landsins fjölgi á móti.

Óljós farþegafjöldi

Sam­kvæmt flug­á­ætlun Isavia lenda 18 flug­vélar á Kefla­víkur­flug­velli í dag. Tíu þeirra koma frá svo­kölluðum öruggum löndum þaðan sem um­ferð hefur verið gerð alveg ó­hindruð inn í landið en lönd sem falla undir þá skil­greiningu eftir að breytingar sótt­varna­læknis tóku gildi í dag eru Noregur, Dan­mörk, Finn­land, Þýska­land, Fær­eyjar og Græn­land. Því er ljóst að að­eins þarf að skima alla far­þega átta véla sem lenda í dag.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins er gert ráð fyrir að um 2.000 til 2.500 far­þegar lendi alls á vellinum í dag og er ljóst að stór hluti þeirra þarf ekki að fara í skimun. Isavia vill þó ekki stað­festa fjöldann eða gefa upp á­ætlaðan fjölda far­þega á vellinum í dag eða næstu daga. „Við höfum bara verið að gefa út mánaðar­legar tölur, sem eru yfir­farnar og stað­festar,“ segir upp­lýsinga­full­trúi Isavia. „Það hefur ekki breyst þrátt fyrir á­standið sem nú er uppi.“

Þeir sem koma frá öruggum löndum en hafa ekki dvalist þar í að minnsta kosti fjór­tán daga fyrir flug sitt þurfa á­fram að fara í skimun.
Fréttablaðið/Valli

Engin ná­kvæm á­ætlun um far­þega­fjölda næstu daga er fyrir hendi enda er á­ætlaður far­þega­fjöldi flug­vélar fyrir­bæri sem breytist hratt frá degi til dags, sér­stak­lega á tímum sem þessum. Þó þeim fækki væntan­lega nokkuð sem þurfa að fara í skimun í dag miðað við síðustu daga segjast stjórn­endur skimunarinnar í Kefla­vík ekki gera ráð fyrir að það haldist næstu daga.

Afkastageta stjórnar umferð í landið

„Þetta er nú ekkert brjál­æðis­­leg fækkun á fólki sem þarf að fara í skimun. Það bætast bara við fleiri flug,“ segir Jór­laug Heimis­dóttir, sem heldur utan um sýna­töku­­verk­efnið í Kefla­­vík. Hún segir að á­huga­vert verði að sjá hvernig málin þróast næstu daga og hver fjöldi þeirra sem þarf að fara í skimun verði miðað við síðustu vikur. Á­fram þarf að skima þá far­þega sem koma til landsins frá öruggum löndum en hafa ekki dvalist þar í alla­vega fjórtán daga fyrir flugið.

Jór­laug í­trekar þó að þeir farþegar sem koma í skimun geti aldrei orðið mikið fleiri en tvö þúsund. Af­kasta­geta sýkla- og veiru­fræði­deildar sé að sjálf­sögðu það sem stjórni flug­um­ferð á vellinum – það sé ein­fald­lega ekki hægt að hleypa fleirum en rétt rúm­lega tvö þúsund inn í landið frá löndum sem eru ekki talin örugg.

Að­spurð hvort hún telji þá að það þurfi að af­lýsa ein­hverjum flugum á næstunni þrátt fyrir breytingar sótt­varna­læknis sem tóku gildi í dag vísar hún á Isavia. Það sé þeirra að stjórna flug­um­ferð um völlinn og þá banna flug­vélum að koma til landsins ef ekki verður hægt að sinna skimun hjá öllum sem þurfa. Isavia vísar aftur á móti á Sam­göngu­stofu, sem er yfir fyrir­tækinu, en stofnunin vísar Frétta­blaðinu þá á­fram á for­sætis­ráðu­neytið. Ekki náðist í Pál Þór­halls­son, skrif­stofu­stjóra ráðu­neytisins, en hann verður á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna sem hefst klukkan 14 í dag.