Em­bætti land­læknis og sótt­varnar­læknir sitja ekki á upp­lýsingum um kóróna­veiru­smit hér­lendis. Um leið og slíkt kemur upp verður það til­kynnt með frétta­til­kynningu og blaða­manna­fundi í kjöl­farið. Þetta stað­festir Kjartan Hreinn Njáls­son, að­stoðar­maður land­læknis í sam­tali við Frétta­blaðið.

Til­efnið eru um­ræður inni á Face­book hópnum „Kórónu­veiran CO­VID-19“ og athugasemdakerfi Fréttablaðsins. Þar hefur því verið slegið fram að upp hafi komið slíkt smit á Land­spítalanum, sem ekki hafi verið greint frá í fjöl­miðlum.

Í gær birtist frétt á vef Fréttablaðsins um spádóma bandarísks rithöfundar um kórónaveiruna og var spurt í athugasemdakerfi af hverju ekki værið fjallað um staðfest smit á Landspítalanum. Enn sem komið er hafa engar til­kynningar borist um slík smit hér á landi.

„Em­bætti land­læknis og sótt­varnar­læknir myndu aldrei undir nokkrum kring­um­stæðum sitja á þeim upp­lýsingum. Við myndum miðla þeim út við fyrsta tæki­færi. Það er al­gjör for­gangur að fólk sé upp­lýst um stöðuna og alveg aug­ljóst að hvorki al­menningur né við, myndum hagnast á því að halda ein­hvers­konar leyndar­hjúpi yfir slíkum tíðindum,“ segir Kjartan.

Eðli­legt sé að slík um­ræða eigi sér stað, í sótt­varnar­á­standi líkt og nú. Heil­brigðis­starfs­fólk sé með­vitað um við­búnað vegna veirunnar og komi upp til­felli sem gæti verið veiran, sé gripið til ráð­stafana sem gert er ráð fyrir.

Fólk taki eftir því og því spinnist upp um­ræða. Það sé eðli­legur við­búnaður í sótt­varnar­á­standi. Fari svo að um stað­fest smit séu að ræða, verði greint frá því.

Fréttablaðið/Skjáskot