Heimildarmönnum Fréttablaðsins meðal þingmanna ber saman um að andrúmsloftið á Alþingi sé afar viðkvæmt. Þannig olli uppákoman í umhverfis- og samgöngunefnd í gær miklum titringi, ekki síst innan stjórnarmeirihlutans. Svo miklum raunar að þingflokksformenn sáu sig tilneydda til að senda fjölmiðlum yfirlýsingu og afneita stuðningi við formann nefndarinnar.

Klaustursmálið virðist nú vera farið að þvælast töluvert fyrir stjórnarmeirihlutanum sem þarf á vinnufriði að halda. Heimildir herma að töluverðs leiða gæti í þingliði og grasrót VG vegna málsins og ekki síst vegna framgöngu karlmanna í þingliði flokksins, einkum þeirra Steingríms J. Sigfússonar þingforseta og Ara Trausta Guðmundssonar, sem studdi fyrrnefnda frávísun í umhverfis- og samgöngunefnd í gær.

Áhrif atburða í þinginu undanfarna daga á samband Framsóknarflokks og Miðflokks eru nokkuð á huldu en mörgum kom á óvart að Líneik Anna Sævarsdóttir skyldi ekki styðja kynsystur sínar í umhverfis- og samgöngunefnd í gærmorgun, og sýna varaformanni sínum, Lilju Alfreðsdóttur, hollustu, heldur stilla sér upp með Jóni Gunnarssyni, þegar tillögunni um að formaður nefndarinnar viki sæti var vísað frá. Sjálf hefur Lilja hins vegar ekki gefið til kynna að henni hafi mislíkað.

Enn liggur ekki fyrir hvort og hvenær breytingar verða gerðar í nefndum þingsins en til þess kemur þó örugglega ef breytingar verða á stærð þingflokka á næstu dögum eða vikum. Bergþór Ólason hefur þegar lýst því yfir að ef gera eigi breytingar á formennsku í hans nefnd hljóti að þurfa að taka upp allt samkomulag minnihlutans um nefndaskipan.

Minnihlutinn fer með formennsku í tveimur nefndum auk umhverfis- og samgöngunefndar; stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og velferðarnefnd. Skilja mátti orð Bergþórs þannig að Miðflokkur gæti allt eins tekið formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi á annað borð að gera breytingar í nefndum. Þar er Helga Vala Helgadóttir fyrir á fleti en hún hefur haft sig mjög í frammi í Klaustursmálinu; annars vegar sem formaður fyrrgreindrar nefndar og hins vegar á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í gær þegar hún lagði til að hinn umdeildi formaður viki sæti í nefndinni.

Færi svo að samkomulag minnihlutans um formennsku í nefndum yrði allt tekið upp er hins vegar alls ekki ólíklegt að Samfylking tæki því fagnandi að skipta á formannsembættum við Miðflokkinn. Reykvíkingar yrðu enda eflaust ánægðir að fá Helgu Völu, þingmann Reykjavíkur, í formannssæti samgöngunefndar nú þegar til stendur að lækka opinber framlög til vegasamgangna á höfuðborgarsvæðinu umtalsvert og fjármagna í staðinn með veggjöldum.