Um mið­nætti bárust Veður­stofu Ís­lands og Al­manna­vörnum á­bendingar um að á Fagra­dals­fjalli virtust vera glæringar í reyk.

Að höfðu sam­ráði við lög­reglu­stjórann á Suður­nesjum var leitað að­stoðar Land­helgis­gæslu Ís­lands sem flaug með full­trúa Veður­stofu og Al­manna­varna yfir svæðið til að kanna málið frekar.

Í ljós kom að þarna var um sinu­bruna að ræða. Ekki verður að­hafst frekar vegna þessa en á­fram verður fylgst grannt með stöðu mála. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Al­manna­vörnum.

Enn er tölu­verð skjálfta­virkni á svæðinu. Upp úr klukkan hálf sex í morgun varð skjálfti af stærð 4,6 á 2,7 km dýpi austan við Fagra­dals­fjall, í námunda við kviku­ganginn. Í til­kynningu frá Veður­stofunni segir að borist hafi til­kynningar um að skjálftinn hafi fundist í Grinda­vík, Reykja­nes­bæ, á höfuð­borgar­svæðinu og á Sel­fossi.