Björgunarsveitir tóku þátt í útköllum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) á gamlárskvöld. Ásdís Gíslason, upplýsingafulltrúi SHS, segir það ekki vanalegt. Það hafi þó gerst þegar gróðureldar geisuðu í Heiðmörk í fyrra.

Síðastliðið gamlárskvöld voru 220 útköll hjá SHS sem er mun meira en vanalega. Kalla þurfti út fólk á bakvakt og var allt starfsfólk á annarri vakt einnig kallað út til að sinna útköllum.

„Á svipuðum tíma hafði Landsbjörg samband við okkur og bauð fram aðstoð sína, sem við þáðum og þökkum við þeim kærlega fyrir þeirra starf,“ segir Ásdís.

Hún segir útköllin hafa verið misalvarleg, þau hafi byrjað um klukkan hálf átta og staðið fram eftir nóttu. „En aftur á móti var rólegt þegar Áramótaskaupið var í gangi, strax að því loknu jókst þunginn í útköllum á ný,“ segir Ásdís.