„Þetta hefur mikla þýðingu fyrir tjáningarfrelsið. Við erum að taka hægt og rólega jákvæð skref í þá átt að það megi tjá sig um ámælisverða hegðun. Þolendur megi í auknum mæli stíga fram og tjá sig,“ segir Sindri Þór Sigríðarson í samtali við Fréttablaðið en hann var nú síðdegis í dag sýknaður af öllum kröfum Ingólfs Þórarinssonar, eða Ingós veðurguðs, í meiðyrðamáli sem hann höfðaði gegn honum vegna ummæla á Internetinu.

Sindri Þór mætti í Héraðsdóm Reykjavíkur í dag til að vera viðstaddur við dómsuppsögu í málinu og var að vonum hæstánægður með sýknuna.

„Þetta er léttir. Ég leyni því ekkert að ég er feginn að vera laus við þetta, þetta er ekkert skemmtilegt,“ segir Sindri Þór en hann segist vonast til að sjá meira af nákvæmlega þessu í dómstólum í framtíðinni.

Sindri Þór segist hafa verið að tjá sig fyrir hópinn sem af einhverjum ástæðum gat ekki eða vildi ekki tjá sig.

Aðspurður hvort hann eigi von á að sjá einhverjar breytingar vegna sýknunnar í dag sagði Sindri Þór:

„Það sem er augljóst að breytist núna um leið, um þessi tilteknu mál, má augljóslega ræða fullum fetum og kalla þetta það sem þetta er. Það er auðvitað það sem maður vill sjá, fyrsta skrefið í átt af einhvers konar réttarumbótum er alltaf að taka hlutina og draga hlutina undan rósunum og út úr skuggunum.“

Sigrún Jóhannsdóttir, lögmaður Sindra Þórs, var gríðarlega ánægð með niðurstöðuna og sagði hana týma við aðra sambærilega dóma sem hafa fallið undanfarið.

„Auðvitað þéttir þetta réttarstöðuna og skýrir hana betur. Við erum komin skrefi nær því að vita hverjar leikreglurnar eru, þetta er umrótatími og við erum svona að reyna finna milliveginn,“ segir Sigrún.