Sindri Sindrason fjölmiðlamaður, hefur fengið hótanir frá fólki tengt þeim málum sem hann fjallar um í þáttum sínum, Fósturbörn, sem eru í sýningu á Stöð 2. Þetta kom fram í viðtali við Sindra í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrr í dag.

Þættirnir fjalla um fólk sem hefur þurft að eiga við barnaverndar- og fósturkerfið á Íslandi, og er það önnur þáttaröð sem nú er í sýningu. „Við höfum fengið á okkur gagnrýni í fyrri seríunni fyrir að taka ekki hlið foreldranna sem misst hafa börnin frá sér og eru fúl út í kerfið,“ sagði Sindri í viðtalinu.

Hann segir að það hafi ítrekað komið fyrir að fólk hafi hringt í sig, mjög ósátt, og jafnvel haft uppi hótanir. „Ég er búinn að fá fjölmörg símtöl frá fólki sem er ekki glatt,“ sagði Sindri og jánkaði því svo þegar þáttastjórnendur spurðu hann hvort að honum hefði verið hótað í einhverju þessara símtala.

Aðspurður segist hann þó oftast hafa getað rætt við fólk án mikilla erfiða. „Markmið mitt er ekki að láta neinum líða illa heldur að sýna mynd af því hvernig þetta kerfi er og hverjir lenda í því,“ sagði Sindri. „Ég skil það vel að margt fólk sé ekki ánægt með það sem kemur þarna fram.“