Sindri Þór Stefánsson játaði að hafa farið inn í gagnaver í Borgarnesi og í gagnaver Advania á Reykjanesi, við aðalmeðferð Bitcoin-málsins svokallaða í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Hann játaði hins vegar aðeins að hafa farið inn í gagnaverin tvö en neitar að hafa skipulagt og lagt á ráðin um brotin.  Sindri Þór breytti þannig afstöðu sinni en hann neitaði alfarið sök við þingfestingu í síðasta mánuði.

Málið varðar stórfellda þjófnaði úr þremur gagnaverum í Reykjanesbæ og Borgarnesi í desember 2017 og janúar 2016, auk tveggja þjófnaðartilrauna. 

Alls eru sjö ákærðir og eru þeir allir mættir við aðalmeðferð málsins. Matthías Jón Karlsson sem er, auk Sindra Þórs, ákærður fyrir alla þjófnaðina og tilraunirnar, breytti einnig afstöðu sinni að hluta, og játar að hafa farið inn í gagnaver Advania í Reykjanesbæ, en neitar að hafa undirbúið, lagt á ráðin og skipulagt þjófnaði. 

Hinir fimm sem ákærðir eru í málinu eru ákærðir fyrir hluta af brotunum. 

Hvorugur þeirra sem játað hefur sök, gengst hins vegar við því að hafa komið að fyrsta innbrotinu sem framið var 5. - 6. desember í gagnaver á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þá gengst Matthías Jón ekki við því að hafa farið inn í gagnaverið í Borganesi. 

Aðalmeðferð málsins mun standa yfir í dag og mun Fréttablaðið fylgjast með gangi mála.  

Umfangsmikið þjófnaðarbrot

Sindri Þór var fyrst handtekinn vegna gagnaversinnbrota upp úr miðjum desember, en var sleppt eftir yfirheyrslu. Örfáum vikum síðar, eða 16. janúar, var stærsta þjófnaðarbrotið framið í gagnaveri Advania. Allir sjö eru ákærðir fyrir aðild eða hlutdeild að því broti, en þaðan var mestum verðmætum stolið og er tjón vegna þess metið á tæpar 80 milljónir.

Samkvæmt ákæru var bortið framkvæmt af Sindra Þór, Matthíasi Jóni og Pétri Stanislav, en allir ákærðu hafi undirbúið, lagt á ráðin og skipulagt innbrotið og þjófnaðinn; þeirra á meðal öryggisvörður sem starfaði hjá öryggisfyrirtæki sem þjónustaði gagnaverin. 

Sjá einnig: „Ég kem fljótlega“

Aðkoma hans hafi meðal annars falist í því að láta hinum ákærðu í té upplýsingar um öryggiskerfi gagnaversins og öryggiskóða sem notaður var til að slökkva á öryggiskerfiinu innbrotið var framið. Öryggisvörðurinn hafi einnig látið þeim þremur sem framkvæmdu innbrotið í té fatnað merktum öryggisfyrirtækinu til að klæðast við innbrotið og þjófnaðinn. 

Sindri Þór var aftur handtekinn í byrjun febrúar. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald 2. febrúar og sætti varðhaldi á Hólmsheiði, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Í fyrsta gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Sindra kemur fram hann hafi að mestu nýtt rétt sinn til að tjá sig ekki um sakargiftir. Símagögn bendi til að hann hafi notast við mismunandi símanúmer og símtæki dagana í kringum innbrotin í því skyni að villa um fyrir lögreglu. 

Hann hafi leigt sendibíla dagana í kringum innbrotin og vitni hafi bent á hann sem einn úr hópi manna sem krafið hafi hann um upplýsingar um öryggiskerfi í gagnaveri Advania. Vitnið hafi einnig sagt bíl sem Sindri hafi ekið við það tækifæri, svipa til þess bíls sem tók á leigu í janúar.  Við húsleit hjá einum hinna ákærðu hafi enn fremur fundist ætlaðar teikningar að gagnaveri Advania.

Símagögn í símum Sindra hafi að geyma miklar upplýsingar um aðdraganda og framkvæmd innbrotanna auk samskipta við aðra sakborninga bæði hér á landi og á Spáni þar sem margir ætlaðra samverkamanna hans dveljist.  Í gæsluvarðahaldsúrskurðinum kemur einnig fram að Sindri Þór hafi nýlega selt búslóð sína og hafi verið að flytja úr landi til Spánar þegar hann var handtekinn. 

Sindri var vistaður á Hólmsheiði til 7. apríl en eftir að rannsóknarhagsmunir voru ekki lengur fyrir hendi var hann fluttur á Sogn, sem er opið fangelsi.  

Sjá einnig: Borgaði sig úr farbanni og fór til Spánar

Flaug til Svíþjóðar með forsætisráðherra

Að morgni 17. apríl hringdi Sindri á leigubíl frá fangelsinu að Sogni. Ferðinni var heitið til Keflavíkur þaðan sem hann flaug til Svíþjóðar í sömu vél og forsætisráðherra sem var bókuð á ráðstefnu í Stokkhólmi. Sindri hafði pantað flugmiða á nafni annars manns um klukkustund áður en hann yfirgaf Sogn.  Strax upphófst mikil leit að Sindra og grunur um að hann hefði komist úr landi var fljótt staðfestur. 

Sjá einnig: Katrín grínaðist með rafgullgröft Sindra

Þremur dögum eftir flugið til Svíþjóðar lofaði Sindri að koma fljótlega heim, í yfirlýsingu sem barst Fréttablaðinu. Hann lét á sér skilja að hann teldi sig ekki hafa brotið lög með brottför sinni enda gæsluvarðhald yfir honum útrunnið á þeirri stundu sem hann yfirgaf fangelsið.    

„Mér hefur ekki verið birt eitt einasta sönnunargagn og mér var ógnað og hótað lengri einangrun meðan einangrun átti sér stað. Mér var margoft sagt að ég fengi að ganga út ef ég myndi staðsetja svokallað þýfi sem ég er grunaður um að hafa stolið. Ég var látinn dúsa í einangrun, sem refsing, því þeir fundu ekki þetta þýfi. Án sönnunar,“ sagði Sindri í yfirlýsingu sinni.

 Mikil lögfræðileg rekistefna upphófst í kjölfarið og lauk með því að víst hafi Sindri verið frjáls ferða sinna þar sem gæsluvarðhald hafi runnið út áður en dómari kvað upp nýjan úrskurð um framhald. Dómsmálaráðherra lýsti því yfir að það væri ekki í lagi að menn væru frelsissviptir hér án dóms og laga og greindi frá því að ríkissaksóknari myndi eiga samráð við dómstólasýsluna um betri verkferla vegna krafna um framlengingu gæsluvarðhalds. 

Reiddi fram 2,5 milljónir og flaug til Spánar

Þegar yfirlýsingin frá Sindra barst blaðinu var ekki vitað hvar Sindri héldi sig en grunur lék á um að hann væri komin til Spánar, þangað sem fjölskylda hans var flutt búferlum. 

Eftir örfáa daga á flótta birti félagi Sindra og meðákærði, Hafþór Logi Hlynsson, mynd af sér og Sindra  á samfélagsmiðlinum Instagram. Af myndinni mátti sjá að þeir voru staddir í Amsterdam í Hollandi. Þarlend lögregla handtók Sindra sama dag og var hann úrskurðaður í 19 daga gæsluvarðhald þar meðan leyst var úr framsalsmálum. Hann lagðist ekki gegn því að vera framseldur til Íslands en tók fram við dómarann þar ytra að hann hefði verið frjáls ferða sinna þegar hann yfirgaf Ísland. 

Sindri kom aftur til Íslands 4. maí og hafði þá verið í burtu í níu daga. Hann var færður fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness sama dag sem úrskurðaði hann í farbann til 1. júní. Ekki var unnt að fara fram á gæsluvarðhald yfir honum því óheimilt er að halda mönnum í gæsluvarðhaldi lengur en 12 vikur, hafi ákæra ekki verið gefin út.  

Ákæra var svo gefin út á hendur Sindra og sex öðrum í lok ágúst. Sindri var áfram í farbanni allt fram í október þegar hann reiddi fram 2,5 milljónir í tryggingu til að losna úr farbanni, gegn því að mæta við aðalmeðferð málsins. Hann flaug í kjölfarið til Spánar til að vera með fjölskyldu sinni en er nú kominn til landsins til að vera við aðalmeðferð málsins.  Þýfið finnst hvergi

Meðan málið var á rannsóknarstigi var talið að um væri að ræða þjófnað á 600 sérhæfðum bitcoinleitartölvum og verðmæti þýfisins væri í kringum 200 milljónir. Samkvæmt ákæru er hins vegar um ýmiskonar tölvubúnað að ræða og tjónið af hinum þremur fullfrömdu þjófnaðarbrotum í kring um 135 milljónir. Þýfið hefur enn ekki komið í leitirnar þrátt fyrir mikla leit. 

Ýmsir hafa hins vegar liðið fyrir leitina, þar á meðal rússneskir Bitcoingrafarar sem urðu fyrir miklum búsifjum þegar lögregla braust inn í lítið gagnaver í þeirra eigu í Vestmannaeyjum, vegna gruns um aðild að þjófnaðinum. Rússarnir reyndust geta gert grein fyrir öllum sínum eigum í gámunum í eyjum. Þær eru hins vegar allar ónýtar eftir aðfarir lögreglu við húsleitina. Samkvæmt heimildum blaðsins hefur þeim Yaninu Vygrebalina og Ivan Zhadnov enn ekki verið bættur sá skaði.