Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur gefið út ákæru á hendur Sindra Þór Stefánssyni og meintum samverkamönnum hans fyrir innbrot og þjófnað úr þremur gagnaverum í desember og janúar. Um sex hundruð tölvum var stolið úr gagnaverunum þremur og er málið það stærsta sinnar tegundar hér á landi. RÚV greindi fyrst frá.  

Þetta staðfestir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við Fréttablaðið, en ákæran á hendur Sindra hljóðar upp á stórfellt þjófnaðarbrot auk þess sem honum er gefið að sök að hafa haldið upplýsingum leyndum. Ólafur Helgi vildi ekki upplýsa um hversu margir eru ákærðir. 

Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra Þórs, hafði ekki fengið ákæruna í hendurnar þegar blaðið náði af honum tali. Hann segist vita til þess að ákæra hafi verið send Héraðsdómi Reykjaness en gagnrýnir harðlega að lögreglustjóri skuli tilkynna fjölmiðlum að ákæra hafi verið lögð fram án þess að hún hafi verið birt sakborningum. 

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst sætir enginn haldi í tengslum við málið. Sindri Þór er hins vegar í farbanni. 

Fréttin hefur verið uppfærð.