Landsréttur hefur staðfest farbannsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Sindra Þór Stefánssyni. Héraðsdómur kvað upp úrskurðinn síðastliðinn föstudag en hann var kærður til Landsréttar. Þar var þess krafist að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi. Á það féllst dómurinn ekki svo Sindri verður í farbanni þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til 26. október 2018.

Í úrskurði Landsréttar segir að varnaraðili hafi verið ákærður fyrir aðild að innbroti og þjófnaði úr gagnaveri 15. desember í fyrra og tilraun til þjófnaðar 26. desember það ár. Hann sé einnig ákærður fyrir aðild að innbroti og þjófnaði 16. janúar 2018.

Sindri var ákærður í júlíbyrjun, ásamt nokkrum mönnum, fyrir þjófnað á um 600 tölvum úr þremur gagnaverum í desember og janúar. Tölvurnar eru metnar á um 200 milljónir króna en um er að ræða tölvur sem framleiða Bitcoin og aðra rafmynt. Þær hafa ekki komið í leitirnar.

Í apríl fór Sindri af landi brott eftir að hafa verið í gæsluvarðhaldi að Sogni. Hann flaug til Svíþjóðar en lögregla hafði uppi á honum í Amsterdam, fimm dögum síðar. Hann hefur síðan verið í farbanni.